MIMRA með tónleika á Blönduósi annað kvöld
MIMRA, verður ásamt hljómsveit sinni á tónleikaferðalagi um landið í sumar og verður m.a. með tónleika á Blönduósi þann 15. júní. MIMRA, eða María Magnúsdóttir söngkona og tónskáld, var valin bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2018 á menningaruppskeruhátíð Garðabæjar sem var haldin í samkomuhúsinu á Garðaholti 16. maí sl. feykir hafði samband við MIMRU og forvitnaðist um listakona.
Hvað getur þú sagt mér um MIMRU?
Ég heiti María Magnúsdóttir og MIMRA er bæði listamannsnafn og hljómsveitarnafn mitt og meðleikara minna. Ég hóf að semja og flytja tónlist fyrir mörgum árum en MIMRA varð til fyrir um fjórum árum þegar ég bjó í Hollandi og fór að útsetja tónlist mína fyrir stærri hljómsveit í eins konar orchestral popp stíl, síðar flutti ég til Englands og tók upp plötuna Sinking Island þar sem ég tónlistin mótaðist enn frekar. Platan kom út seint á síðasta ári og hefur verið mjög vel tekið, hún er aðgengileg á spotify og víðar.
Hvernig er hljómsveitin skipuð?
Hljómsveitin er skipuð þremur öflugum tónlistarkonum. Ég sjálf syng og spila á píanó, Sylvía Hlynsdóttir spilar á trompet og synta og Hollensk vinkona okkar Jara Holdert spilar á gítar og syngur. Við þrjár ætlum að flytja tónlist MIMRU á okkar hátt fyrir tónleikagesti og hlökkum gífurlega til. Jara sjálf er stórkostlegt söngvaskáld sem semur tónlist í anda gömlu söngvaskálda 7. áratugarins og ætlar að hita upp á tónleikum okkar um landið.
Hvers konar tónlist mega landsmenn eiga von á hjá MIMRU?
Með tónleikaferðalaginu erum við að fylgja eftir plötunni Sinking Island sem er stútfull af metnaðarfullum popplögum í stórum útsetningum. Við þrjár ætlum að flytja tónlistina á aðeins smærri skala og á okkar hátt, lögin eru einlæg, vönduð og láta engan ósnortinn. Sinking Island var brake-up plata en nýju lögin sem fá líka að læðast með á prógrammið eru öllu hamingjusamari og hressari.
Hvers vegna varð Blönduós fyrir valinu?
Ég tók góðan rúnt um Blönduós á leiðinni í bæinn í apríl síðastliðnum. Veðrið var gott og bærinn var svo fallegur og friðsæll að ég kolféll fyrir honum. Þegar ég fór svo að skipuleggja tónleikaferðalagið hugsaði ég strax til Blönduóss og að gaman væri að spila þar. Ég hafði samband við Finn og Tóta kokk á Hótel Blöndu sem tóku bara stórvel í hugmyndina. Daginn áður spilum við á Akureyri og daginn eftir á Hólmavík svo þetta smellpassar allt saman.
Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri?
Þið getið fylgt okkur eftir á ferðalaginu gegnum myllumerkið #MimraRoadtripTour á facebook og instagram. Ef þið viljið kynna ykkur tónlist okkar má kíkja á www.mimramusic.com og www.jara.nu. Tónleikarnir okkar verða á Hótel Blöndu föstudagskvöldið 15. júní kl 21.00, miðaverð verður einungis 2000 kr og við vonumst til að sjá ykkur þar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.