Mikill fjöldi svikasímtala erlendis frá sl. daga
Undanfarna sólarhringa hafa þúsundir svikasímtala borist til símnotenda hér landi frá erlendum símanúmerum og sendi Fjarskiptastofa frá sér tilkynningu hvað varðar þetta efni og segir að símanúmerin sem birtast á símum notenda bera með sér að þau komi frá Lúxemborg og Sri Lanka. Númerin sem um ræðir byrja á +352 og +94. Þar sem hér er um svikasímtöl að ræða, framkvæmd með upphringivélum, geta símanúmerin verið skálduð og algjörlega ótengd þessum löndum.
Tilgangur þeirra sem standa fyrir þessum svikasímtölum er að fá notendur til að svara eða hringja til baka í það númer sem birtist þegar hringt var. Ef notendur hringja til baka myndast greiðsluskylda fyrir símtalið og sá möguleiki fyrir hendi að þeir sem standa að baki svikunum nái til sín fjármunum. Ef símtalinu er svarað gætu notendur lent í annars konar svikum.
Vegna þessa mikla fjölda svikasímtala sem borist hafa núna í febrúar hafa íslensk fjarskiptafyrirtæki brugðist við til að verja notendur sína fyrir svikunum eins og hægt er, en erfitt getur reynst að tryggja það fullkomlega að slík símtöl berist ekki til notenda.
Fjarskiptastofa vill koma því á framfæri við símnotendur að svara aldrei símtölum sem þeim berast úr númerum sem þeir kannast ekki við né hringja til baka í slík númer. Notendum er beint á að tilkynna mál af þessu tagi til fjarskiptafyrirtækis síns og eftir atvikum fá leiðbeiningar um hvað unnt er að gera.
Þá bendir Fjarskiptastofa á að aðgæsla símnotenda er helsta vopnið gegn þessari svikastarfsemi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.