Menningarhúsið opnað með glæsibrag
Menningarhúsið MIðgarður verður opnað með glæisbrag sunnudaginn 26. maí en endurbætur á húsinu hafa staðið síðan á vordögum árið 2006.
-Vinnan við endurbæturnar hefur gengið hægar heldur en menn vildu og ætluðu í upphafi, segir Guðmundur Guðlaugsson, sveitarstjóri. -Hins vegar er útkoman sú að húsið er hið glæsilegasta og við skulum því bara segja að það hafi verið vel biðarinnar virði, bætir hann við.
Sem tónlistarhús kemur húsið til með að njóta sín vel og er nú þegar búið að bóka tónleika í Sæluviku.
Nú gekk treglega að fjármagna verkið er fjármögnun lokið? -Það gekk í raun ekki treglega. Málið var að verkið átti að kosta 100 milljónir og lagði ríkið til 60 milljónir af því eða 60% af kostnaði með þak á 60 milljónum. þannig að færi verkið fram úr áætlun bæru sveitarfélögin þann mismun. Það kom strax í ljós að áætlanir höfðu verið of lágar en við tókun engu að síður ákvörðun um að halda áfram með verkið. Gerðum reyndar breytingar sem leiddu til lækkunar en engu að síður fór verkið langt fram úr kosnaðaráætlunum.
Hvað með þessar 30 milljónir? -Það var óskað eftir viðbótarfé frá ríkinu og fengum við loforð um það haustið 2007 að 30 milljónir fengjust. En við fjárlagagerð hafa þessar 30 milljónir alltaf lent milli vita og birtust ekki fyrr en nú eftir mikla vinnu sveitarstjórnar- og embættismanna sem hafa átt viðræður við ráðuneytið og þingmenn sem á endanum leiddi til lausnar málsins með góðri samvinnu okkar, starfsmanna ráðuneytisins og ráðherra. Við erum við þakklát ráðherra fyrir hennar þátt í þessu máli, segir Guðmundur.
Hvað kostar verkið í heild? -Það má gera ráð fyrir að það kosti um 230 milljónir og þar af koma 90 milljónir frá ríkissjóði. Þá er ekki talið með glerhýsið við inngang hússins sem Akrahreppur kostar sérstaklega.
Nú hafa fulltrúar VG kvartað yfir því að hafa ekki haft aðgang að gögnum um byggingu hússins er eitthvað til í því? -Þeir hafa haft, eins og aðrir sveitarstjórnarfulltrúar, greiðan aðgang að mér og tæknideildinni hvenær sem er með allar upplýsingar sem varða verkið þannig að það hefur ekki staðið á okkur með að veita upplýsingar um það. En mér vitanlega hafa þeir ekki haft neitt samband við tæknideild um málið sem hefur besta vitneskju með gang mála á verktímanum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.