Taka í notkun meðalhraðaeftirlit í Hvalfjarðargöngum
Í tilkynningu frá Vegagerðinni kemur fram að meðalhraðaeftirlit í Hvalfjarðargöngum verður tekið í notkun þann 22. febrúar 2024. Sjálfvirkt hraðaeftirlit er ein af megin áherslum í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda. Hraðamyndavélar eru fyrst og fremst settar upp á köflum þar sem slys eru mörg, en einnig er lögð áhersla á að setja slíkan búnað upp í jarðgöngum til að draga úr líkum á að slys verði.
Sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit byggir á því að meðalhraði ökutækis sem fer tiltekna vegalengd er reiknaður út með því að deila í vegalengdina með tíma. Þá vinna tvær myndavélar saman fyrir hvora akstursstefnu, þar sem önnur er staðsett í byrjun kaflans en hin í enda kaflans. Teknar eru myndir af öllum ökutækjum og búnaðurinn greinir hversu lengi ökumaður var að aka á milli myndavélanna og reiknar þannig út meðalhraða ökutækisins á kaflanum. Ef útreiknaður hraði er meiri en leyfilegt er telst viðkomandi ökumaður brotlegur og eftir það sér embætti lögreglustjórans á Vesturlandi um frekari úrvinnslu og sektarboð. Öll gögn eru dulkóðuð og myndir af þeim sem ekki eru brotlegir eyðast sjálfkrafa í myndavélunum. Skilti sem gefa eftirlitið til kynna hafa verið sett upp beggja vegna ganganna. Meðalhraðaeftirlit í Hvalfjarðargöngum verður tekið í notkun þann
22. febrúar 2024.
Vegagerðin ber ábyrgð á tæknilegri framkvæmd eftirlitsins, en Ríkislögreglustjóri ber ábyrgð á úrvinnslu og innheimtu sekta.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.