Matgæðingar vikunnar - Sinnepslúða með sítrónu
Í 35. tbl Feykis árið 2008 buðu matgæðingarnir Eva Gunnarsdóttir og Guðjón Jónsson frá Sturluhóli upp á gómsætan lúðurétt með tilheyrandi forréttarsúpu og eftirrétt sem bráðnar í munni. Þau skoruðu á Hafþór Gylfason og Sigþrúði Magnúsdóttur Sunnuvegi 11 Skagaströnd að koma með uppskrift að tveimur vikum liðnum.
Forréttur: Sterk fiskisúpa f. 6.
- 100 g smjör,
- 1 msk grænt karrý mauk,
- 1 msk rautt karrý mauk,
- 2 msk hveiti,
- 1 1/2 l fiskisoð,
- 2-3 gulrætur,
- 3 rauðar paprikur,
- 2 stönglar af sellerí,
- 2 rauðir chilli belgir,
- Estragon eftir smekk,
- 1 lítil dós af tómat puré,
- 1/4 l rjómi,
- 500-600 g fiskur að eigin vali.
Paprikur, gulrætur, sellerí og chilli er skorið niður og svitað í smjörinu og karrýmaukinu á pönnu. Hveiti er bætt saman við og fisksoðinu hellt rólega saman við. Estragoni og tómatpuré bætt út í ásamt rjómanum og að lokum er fiskbitunum bætt út í. Súpan er borin fram með góðu brauði.
Aðalréttur: Sinnepslúða með sítrónu f. 4
- 1 kg lúðuflök eða heil lúða,
- 1 sítróna,
- 1/2 stór krukka af Dijon sinnepi,
- Salt og pipar eftir smekk,
- 500 g smjör.
Sítrónan er skorin í þunnar sneiðar og sett í pott ásamt smjörinu og sinnepinu. Hrært vel í á meðan. Lúðuflökin/lúðan eru sett í eldfast mót og sósunni hellt yfir. Steikt í c.a 20 mín. við 180° C. Borið fram með nýjum kartöflum eða grjónum og einföldu salati.
Eftirréttur: Súkkulaðimús f. 4.
- 4 eggjahvítur,
- 200 g sykur,
- 200 g súkkulaði (70%),
- 1 peli rjómi,
- Jarðarber.
Eggjahvíturnar og sykur eru stífþeytt saman. Súkkulaði brætt í vatnsbaði og hrært saman við sykurinn og eggjahvíturnar. Rjóminn er þeyttur og svo eru þessu blandað varlega saman (þannig að músin líti út eins og marmari). Sett í glös eða skálar. Látið standa í ísskáp í 1-2 klst. Skreytt með jarðarberjum.
Verði ykkur að góðu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.