Matarkistan á Vetrarhátíð
Matarkistan Skagafjörður tók þátt í Vetrarhátíð í Reykjavík 13-14. febrúar s.l.ásamt öðrum matvælaklösum á Norðurlandi, Matur úr Eyjafirði, Þingeyska matarbúrið og Síldin frá Siglufirði. Unnu þessi verkefni saman að því að kynna mat frá Norðurlandi með því að bjóða upp á smakk, hjálpuðust allir aðilar að við kynninguna og má segja að þetta sé byrjun á enn meira samstarfi milli matvælaklasanna.
Smakkið var ekki af verri endanum, Skagfirðingar buðu upp á brot af því besta frá Skagafirði, pönnsur og lagtertu frá Áskaffi, hrátt hrossakjöt frá Kjötafurðastöðinni, rækjur frá Dögun, ost frá Mjólkursamlaginu, bleikju frá Hólalax og þorsk frá Fisk Seafood. Þingeyingar buðu upp á hverabrauð, kæfu, hangilæri, græningja o.fl. Eyfirðingar buðu meðal annars upp á skyr drykk, kæfu, ost og síðan buðu Friðrik V frá Akureyri og Júlli Fiskidagsmaður frá Dalvík upp á súpu. Einnig var gefið smakk af Síldinni frá Siglufirði.
Það voru ekki einungis matvælaklasarnir á Norðurlandi að kynna sína starfsemi á Vetrarhátíð, heldur var Ferðaþjónustan á Norðurlandi að kynna fegurð og kosti Norðurlands, á sama tíma, á sama stað. Stúfur mætti á föstudeginum og dreifði hjörtum til gesta og gangandi. Á laugardeginum mætti þriðji ísbjörninn og rölti um miðborgina, Leikfélag Akureyrar sýndi brot úr leikritinu „Fúlar á móti“ og leikarinn Oddur Bjarni frá Húsavík var með örnámskeið í Norðlensku!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.