María Dögg og Lilla semja við Tindastól
Knattspyrnudeild Tindastóls heldur áfram að festa heimastúlkur á samning og er það vel. Nú undir lok vikunnar var tilkynnt um að Sigríður Hrafnhildur Stefánsdóttir (Lilla) og María Dögg Jóhannesdóttir væru búnar að setja nafnið sitt á svörtu línuna.
María Dögg, dóttir Jóa Þórðar og Helgu Eyjólfs, hefur verið sem klettur í vörn Tindastóls um langan tíma þó aldurinn þvælist ekki fyrir henni. María Dögg er fædd 2001 en hefur þegar spilað 157 leiki með Stólastúlkum og skorað í þeim 21 mark. „María kallar nú ekki allt ömmu sína en hún berst fyrir félagið innan vallar sem utan og ánægjulegt að hún sé klár í slaginn,“ segir í tilkynningu á vef Tindastóls.
Lilla er 17 ára gömul, dóttir Stefáns Vagns og Hrafnhildar Guðjóns, og ver markið líkt og pabbi hennar gerði í denn. Hún skrifaði undir þriggja ára samning. Í tilkynningu á síðu knattspyrnudeildar segir að Lilla komi upp í gegnum yngri flokka starf félagsins og verður í hópi meistaraflokks kvenna í sumar ásamt því að vera mikilvægur leikmaður fyrir 2.fl kvk.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.