Malen í fjórða sætinu með Anywhere ... eða reyndar á toppnum!

Malen. AÐSEND MYND
Malen. AÐSEND MYND

„Anywhere er um kærasta minn svo það er svona væmið og krúttó,“ segir Malen Áskelsdóttir tónlistarkona þegar Feykir spyr hana um hvað lagið Anywhere sé, en það var í vikunni í fjórða sæti Vinsældalista Rásar2.

„Við höfum mikið verið að ferðast saman og vorum að plana Asíuferð á svipuðum tíma og ég samdi lagið, svo hugmyndin að textanum kom held ég þannig. Smá fyndið hvað það var nákvæmt samt, ég skrifaði um hvað það er næs að labba berfætt á ströndinni og að sjá borgarljós frá 18. hæð – og það var nákvæmlega það sem við gerðum, vorum meira að segja á 18.hæð fyrir tilviljun.“

Kemur það þér á óvart að lagið sé komið í fjórða sæti á lista Rásar 2? „Þegar ég sest með gítarinn og fer að semja þá er það fyrir sjálfa mig, oft finn ég þörf fyrir það ef ég er til dæmis að hugsa um eitthvað sérstakt eða bara löngunin í að skapa eitthvað. En svo er mikil „á bakvið tjöldin” vinna sem fer í að taka upp og gefa út tónlist. Alls konar praktísk atriði sem ég þarf að gera og stundum þegar maður er að reyna koma sér á framfæri þarf maður að fá mörg nei áður en maður fær eitt já. Þá er létt að missa aðeins móðinn. Svo það er alltaf skemmtilegt að sjá þegar fólk er að hlusta og þegar lögin fara á Spotify playlista og Vinsældalista Rásar 2 – það gefur mér pepp í að halda áfram að gefa út tónlist.“

Hefurðu verið að troða upp einhversstaðar nýlega? „Seinasta gigg sem ég tók voru kósý tónleikar í Kaupmannahöfn. Þá var ég bara ein með gítarinn. Það var mjög gaman, sérstaklega eftir á því ég var svo stressuð,“ segir Malen hlæjandi og bætir við. „Ég er ekki vön að koma fram ein og finnst skemmtilegra að hafa einhvern með mér.“

Er von á enn meiri músík /hvað ertu að sýsla annað en í músík? „Já, vonandi næ ég að gefa út aðra plötu einhverntímann. Hvort hún verði tilbúin eftir ár eða fimm veit ég ekki. Svo hef ég aðeins verið að semja fyrir aðra sem mér finnst líka gaman. Ég stefni svo á að halda aftur Kántrýtónleika á Króknum næsta vor, það var svo gaman seinast, en örugglega meira um það síðar!

Hvað ertu að sýsla annað en músík? „Ég útskrifaðist sem ljósmyndari árið 2022 og hef verið að vinna sjálfstætt í því síðan. Á tímabili var ég líka að kenna söng, aldrei að vita nema ég byrji í því aftur einhverntímann .“

Þú verður með á Jólin heima, hvað finnst þér um það ævintýri, er þetta skemmtilegt verkefni? „Já, þetta verður fimmta árið mitt. Vá, svo skemmtilegt! Æfingaferlið hefur alltaf verið skemmtilegt og lærdómsríkt. Ég fýla mig mikið í svona umhverfi þar sem allir eru að vinna saman að því að gera þetta að flottu show-i. Ein heild en hver og einn er með sitt hlutverk og það fer mikill tími í það að útsetja lögin og fara yfir hvert smáatriði hjá hverju hljóðfæri og hverjum söngvara. Ég hef verið að útsetja raddir fyrir bakraddakórinn sem mér finnst líka mjög gaman. Þetta er allt svo ástríðufullt og hæfileikaríkt tónlistarfólk. Það er svo auðvitað alltaf gaman á tónleikunum sjálfum. Þetta er bara orðin jólahefð hjá manni – kemur mér alltaf í jólaskap! Mér finnst svo flott hvað þetta er fjölbreytt, eitthvað fyrir alla. Alls konar lög úr alls konar tónlistarstefnum, flutt af mismunandi söngvurum. Þessvegna hafa þessir tónleikar líka verið allur tilfinningaskalinn; grátið, hlegið en alltaf endað á jólastuði. Svo endum við hópurinn kvöldið á partý þar sem við erum öll rosa þreytt og í spennufalli og í stuði – allt í graut. Þá er spjallað, sungið, dansað og alls konar, enda skrautlegur og upp til hópa athyglissjúkur hópur,“ segir Malen og er greinilega farið að hlakka til jólanna.

UPPFÆRT að kvöldi: Anywhere með Malen er nú komið á topp Vinsældarlista Rásar2 – til hamingju Malen!

- - - - - -
Hér að neðan er hluti hópsins sem tróð upp á Jólin heima í fyrra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir