Malbikað við Sauðárkrókskirkjugarð
Það er stundum talað um að óvíða í kirkjugörðum sé útsýnið magnaðra en í kirkjugarðinum á Nöfum á Sauðárkróki. Kirkjugarðar þurfa hinsvegar mikla umhirðu og fólk gerir kröfur um að aðgengi sé gott og garðarnir snyrtilegir. Nú í haust var ráðist í að malbika nýlega götu og plan vestan kirkjugarðsins, setja upp lýsingu og frárennsli og er þetta mikil bragarbót þar sem gatan nýja var með eindæmum hæðótt og leiðinleg yfirferðar.
Aðkoman að garðinum og aðstöðuhúsinu Friðheimum, sem tekið var í notkun 2016, er því til mikillar fyrirmyndar núna. Fyrr í sumar var sett bundið slitlag á veginn upp Kirkjuklaufina og aðrar götur við kirkjugarðinn. Þá hefur verið lagður kantsteinn við götuna austan garðsins.
„Næst á dagskrá er að fara í endurbætur á veggnum að austanverðu við garðinn þar sem steypan er orðin mjög morkin og ekki hjá því komist að endurnýja,“ segir Ingimar Jóhannsson, formaður sóknarnefndar Sauðárkrókskirkju, en elsti hluti veggsins er að verða 100 ára. Hann segir að nú sé verið að vinna að skipulagi að stækkun á garðinum en til að byrja með verður hann stækkaður til vesturs og síðar til suðurs ef allt gengur eftir. Ljóst er að bráðlega þarf að setja upp nýja girðingu að vestan en sú sem fyrir er hefur lagst tvisvar á hliðina í óveðrum síðustu misserin.
„Það var sóknarnefnd Sauðárkrókskirkkju sem stóð fyrir malbikunarframkvæmdum og lýsingunni en sveitarfélagið sá um fráveitumál. Safnþró við aðstöðuhús var aflögð og sett upp skólphreinsistöð þannig að þau mál eru komin í eins gott horf og nútíminn býður upp á,“ segir Ingimar.
Þá segir hann að fyrirhugaðar séu endurbætur á eldhúsi í Safnaðarheimilinu og að unnið hafi verið að því að endurbæta snyrtingar. Þá er von á að safnaðarheimilið fái ljósleiðaratengingu von bráðar og þá vonandi lagast útsendingar úr kirkjunni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.