Maður lifir og lærir og allt fer í reynslubankann!
Nú styttist óðfluga í að Íslandsmótunum í knattspyrnu ljúki. Lið Tindastóls, sem hefur í sumar spilað í efstu deild í fyrsta sinn, á eftir að spila tvo leiki í Pepsi Max-deild kvenna og eru í þeirri stöðu að þær verða að vinna báða leikina til að eiga möguleika á að halda sæti sínu í deildinni. Fyrri leikur liðsins er á Selfossi nú á laugardaginn en síðasti leikurinn er sunnudaginn 12. september þegar Stjörnustúlkur mæta á Krókinn.
Af þessu tilefni sendi Feykir nokkrar spurningar á Bryndísi Rut Haraldsdóttir, fyrirliða Stólastúlkna, og spurði hana m.a. út í leikinn gegn Keflavík fyrr í vikunni og sumarið í efstu deild.
Hvað fannst þér um leik Tindastóls og Keflavíkur og hvað finnst þér hafa skipt sköpum í báðum tapleikjum sumarsins gegn Keflavík? „Seinni leikurinn var að mínu mati góður af okkar hálfu nema við náum ekki að skora! Við spiluðum vel, sérstaklega í fyrri hálfleik, og það hefði verið sanngjarnt að fá stig úr leiknum, og hvað þá þrjú. Við hefðum þurft á smá heppni að halda, áttum tvö sláarskot og fullt af hornum sem markmaðurinn hjá Keflavík varðist vel í. Þannig að við erum að sjálfsögðu svekktar yfir að hafa tapað eftir svona leik. Því miður þá skora Keflavík tvö mörk á okkur í sumar,bæði eftir horn, svo það er einnig gremjulegt en þær eru góðar í föstum leikatriðum. Við þurfum að bæta varnarleik í föstum leikatriðum og bæta í sóknarleikinn, kannski fá smá heppni með okkur í lið. Við klikkuðum á að þakka áhorfendum fyrir að mæta á heimaleikinn á móti Keflavík, algjört klúður og því viljum við þakka öllum sem mættu fyrir að hafa mætt!“
Ef þú ættir að nefna eitthvað þrennt sem er ólíkt í Pepsi Max og Lengjudeildinni, hvað væri það? „Hraðinn, gæðin og umfangið. Það er meira tempó í leiknum þar sem liðin eru með betri tækni, hraða og styrk. Gæðin eru meiri þar af leiðandi og það er eitthvað sem er ólíkt milli deilda, liðin refsa hiklaust ef það eru gerð mistök þar sem leikmenn í þannig gæðaflokki spila gegn okkur, landsliðsmenn og mögulegir atvinnumenn. Umfangið í kringum efstu deildina er meira, allir leikir sýndir í vefsjónvarpi Stöðvar 2, meiri athygli beint að okkur en umfjöllun í öllum deildum er alltaf að aukast.“
Er eitthvað sem hefur komið þér og liðinu á óvart í efstu deild og hefur þátttakan í efstu deild verið skemmtileg?„Þetta tímabil er alveg einstakt, mikil vinna en mikil gleði og ánægja yfir því að hafa komist hingað! Okkur finnst við eiga heima í þessari deild en ætli það hafi ekki komið okkur mest á óvart, hvernig deildin hefur spilast! Allir geta unnið alla og var deildin mjög spennandi í fyrrihlutanum því stærstu liðin stungu ekki hin liðin af eins og oft áður. Það hefur verið mjög skemmtilegt að taka þátt í þessu ævintýri en einnig hefur þetta verið erfitt, förum úr því að vinna alla leiki yfir í að tapa fleiri en við vinnum. Við áttum von á að þetta yrði erfitt en við höfum alltaf átt séns í öllum leikjum –nema kannski gegn Val.“
Með hvaða leik ertu ánægðust það sem af er sumri og hvaða úrslitum var erfiðast að kyngja? „Ég var ánægð með leikinn á móti ÍBV hérna heima, vel spilaður hjá okkur og við skiluðum inn okkar fyrsta sigri í efstu deild! Ég átti erfitt með að kyngja tapinu hérna heima á móti Þór/KA þar sem við missum leikinn frá okkur og það frekar klaufalega að minni hálfu en maður lifir og lærir og allt fer í reynslubankann!“
Valskonur eru orðnar Íslandsmeistarar og það er eina liðið sem hefur skellt liði Tindastóls stórt í sumar. Hvað voru þær að gera betur en aðrir andstæðingar Tindastóls? „Ég tel þær hafa besta liðið á Íslandi í dag, þær mæta í báða leikina á móti okkur grimmar með ekkert vanmat á spútnik liðið. Þær hafa rosaleg gæði í öllum stöðum á vellinum og það kemur mér ekkert á óvart að þær séu Íslandsmeistarar í dag.“
Með hvað hefurðu verið ánægðust hjá þínu liði í sumar og er eitthvað sem þér finnst að liðið hefði mátt gera betur?„Ég er að sjá miklar framfarir hjá mörgum liðsfélögum mínum og það gleður mig mest. Reynslan hjá liðinu í efstu deild var engin þar sem það átti enginn leikmaður fyrir tímabilið leik í efstu deild en maður finnur að þessi reynsla verður okkur mjög dýrmæt! Það er alltaf hægt að líta til baka og læra, en það þýðir ekkert að dvelja á hlutum sem eru búnir að ske.“
Hvernig leggjast síðustu tveir leikirnir í lið Tindastóls? „Við erum spenntar, smá stress sem er ágætt til að halda okkur á tánum og með trú á að við lendum sex stigum – enda er ekkert annað í boði ef við ætlum okkur að halda sæti í efstu deild!“ segir Bryndís Rut að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.