Lummudagar í Varmahlíð

          
Þegar kom að skreytingum voru íbúar í Varmahlíð með smáatriðin á hreinu.
Þegar kom að skreytingum voru íbúar í Varmahlíð með smáatriðin á hreinu.

Varmhlíðingar létu Lummudagana ekki framhjá sér fara, þónokkuð var um appelsínugular skreytingar í þorpinu og dagskrá á laugardeginum.

Dagskráin hófst með ratleik þar sem um 50 manns tóku þátt, fólk á öllum aldri og jafn þorpsbúar sem ferðamenn af tjaldstæðinu. Ratleikurinn dró hópana inn í Kaupfélag að athuga verð á spaghetti, suður á leikskóla þar sem mála átti börnin, inn í skóg þar sem yrkja þurfti vísu, upp á fótboltavöll þar sem skora þurfti mörk og að lokum niður að Hótel Varmahlíð þar sem allir gæddu sér á lummum og drykkjarföngum.

Þegar fólk hafði svalað þorstanum og mett magann voru veitt verðlaun í hinum ýmsu flokkum og m.a. fyrir bestu vísuna. Þau verðlaun fékk hópur af fólki sem var tjaldsvæðinu og hljómar vísan svo:

Lummur eru gómsætar
Skagfirðingar bjóða
með sultu og rjóma vel ætar

hlátrasköllin hljóma.

 

Þess má geta að allir hópar þurftu að syngja vísuna sína í verðlaunaafhendingunni og við lagið Fljúga hvítu fiðrildin.

Að lummukaffinu loknu fór hópur fólks í Krókinn til að taka þátt í dagskrárhöldunum þar en Steini á Mel bauð upp á rútuferð og skilaði svo hópnum heim um sexleytið en þá var fjöldi fólks saman kominn við Varmahlíðarskóla þar sem var grillað og sungið fram á kvöld.

Varmhlíðingar virtust almennt mjög ánægðir með daginn og hlökkuðu til að gera enn betur að ári. Þá höfðu hagyrðingarnir af tjaldstæðinu orð á því hversu gaman var að taka þátt í þessum degi.

Myndirnar og textann sendi Rúnar Gíslason. Ef fleiri lesendur Feykis luma á myndum og skemmtilegum sögum þá minnum  við á að allt svoleiðis er vel þegið.

                

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir