Ljómandi laugardagur í gamla bænum
Skagfirðingar tendruðu ljósin á jólatrénu á Kirkjutorginu á Sauðárkróki nú á laugardaginn en tréð er gjöf frá Kongsberg, vinabæ sveitarfélagsins Skagafjarðar í Noregi. Fjölmennt var í bænum enda veður eins og best verður á kosið á þessum árstíma, mátulega kalt, logn og klaki, snjór, jólaljós og gleðibros úti um allt.
Það var Ásta Pálmadóttir sveitarstjóri sem hélt hátíðarræðu og tendraði ljósin á jólatrénu eftir að skólakór Árskóla hafði sungið nokkur vel þekkt jólalög. Þegar ljósin höfðu verið tendruð kom hópur álappalegra jólasveina blaðskellandi niður Kirkjuklaufina með ávexti í poka. Ekki er laust við að nokkurs æsings hafi gætt hjá yngstu borgurunum þegar sveinkarnir létu loks sjá sig en þeir voru auðvitað að stelast í bæinn, voru ekki komnir með fararleyfi frá yfirvaldinu.
Dagskráin á Kirkjutorgi heppnaðist ljómandi vel og var aðventustemningin í gamla bænum feykilega fín. Hér má sjá slatta af myndum sem ljósmyndari Feykis tók.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.