Litla syndin ljúfa er ómótstæðileg

Þröstur Jónsson og Kolbrún Jónsdóttir á Sauðárkróki buðu lesendum Feykis upp á dýrindis uppskriftir á haustmánuðum 2008. Litla syndin ljúfa er sá eftirréttur sem þeim þykir hvað ómótstæðilegust. Þau skoruðu á Kára H Árnason og Margréti G Helgadóttur á Sauðárkróki að koma með uppskriftir að tveimur vikum liðnum.  

 

 Forréttur

 Rækjusúpa með ferskjum

  •  1  laukur
  • 1-3 hvítlauksrif
  •       matarolía
  • 1-2 tsk. karrý
  • 1 dós niðursoðnir tómatar (400gr.)
  • 4 dl. vatn
  • 1 fiskiteningur
  • Stór dós ferskjur
  • 2 ½ dl. rjómi
  • Ferskjusafi
  • 200 gr. rækjur
  • ¼ haus kínakál

 

Matarolían er sett í pott ásamt karrý, lauk og hvítlauk og léttsteikt. Tómatar brytjaðir og settir út í ásamt vatni og teningum. Látið krauma í 10 mín. Ferskjurnar brytjaðar og settar út í ásamt rjómanum. Bragðbætt með ferskjusoði. Suðan látin koma upp, potturinn tekinn af og rækjurnar settar út í. Kínakálið er skorið í strimla og sett á hvern matardisk og súpunni ausið yfir. Borið fram með brauði.

 

Aðalréttur

Lambahryggvöðvi með hunangs- og sinnepsgljáa

  • 1 kg hryggvöðvi með fitu
  • 1 msk. olía
  • ½ laukur fínt saxaður
  • 1 tak. fínt saxaður hvítlaukur
  • 2 tsk. Dijonsinnep
  • 1 msk. hunang
  • Safi og börkur af ½ sítrónu
  • 2 msk. vatn
  • ½ msk. timían
  • Salt og pipar

 

Steikið laukinn í olíunni þar til að hann verður glær. Bætið öllu nema kjötinu í og látið sjóða í 1 mín. eða þar til blandan þykknar. Kælið. Grillið lambavöðvana í 10 – 12 mín. við meðalhita, meirihlutann af tímanum með fituna niður. Byrjið að pensla kjötið með kryddleginum þegar eldunartíminn er hálfnaður og penslið af og til þar til kjötið er tilbúið. Snúið kjötinu ört svo það brenni ekki. Þetta má svo bera fram með bökuðum kartöflubátum, salati og maísstönglum.

 

Eftirréttur

Litla syndin ljúfa 

  • 140 gr. smjör og meira til að smyrja formin
  • 140 gr. suðusúkkulaði (Síríus)
  • 2 egg
  • 3 eggjarauður
  • 140 gr. flórsykur
  • 60 gr. hveiti

 

Hitið ofninn í 220°c (ekki nota blástur). Smyrjið 6 lítil souffléform með smjöri. Setjið smjörið og súkkulaðið í form og bræðið við vægan hita. Takið af hitanum um leið og smjörið er bráðið og hrærið í þar til súkkulaðið er alveg bráðið. Þeytið egg og eggjarauður í skál og setjið svo flórsykurinn út í og þeytið vel. Hellið súkkulaðiblöndunni saman við og þeytið á meðan og hrærið að lokum hveitinu saman við. Skiptið deiginu jafnt í formin og gætið að fylla þau ekki alveg. Setjið formin á plötu og eða ofnskúffu og bakið kökurnar í 11 -12 mínútur. (Ath. baka án blásturs). Þetta er síðan borið fram með ís eða rjóma og einnig má hafa jarðaber eða aðra ávexti með.

Verði ykkur að góðu

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir