Listamiðstöðvar vettvangur háskólanáms á Norðurlandi vestra
Nemendur Virginia Tech háskólans í Bandaríkjunum og Concordia háskóla í Montréal í Kanada, hafa nú í júnímánuði dvalið í listamiðstöðvunum á Blönduósi og á Skagaströnd. Þrettán nemendur eru í hvorum hóp. Kathleen Vaughan, aðstoðarprófessor við Concordia, dvelur með nemendum sínum á Blönduósi og á Skagaströnd dvelja Lesley Duffield og Rachel Lin Weaver, aðstoðarprófessorar við Virginia Tech. Blaðamaður Feykis settist niður með Kathleen og Rachel umsjónarmönnum verkefnanna og ræddi við þær um upphafið, hugsjónina og framtíð verkefnisins.
Það mætti gera ráð fyrir því að þetta væru samantekin ráð að nemendur beggja skólanna séu við nám á sama tíma en í raun er það algjör tilviljun að skólarnir dvelji á Norðurlandi vestra í júnímánuði. Upphafið að dvöl nemendanna í Austur - Húnavatnssýslu má rekja til þess að umsjónarmennirnir þrír hafa allir dvalið í listamiðstöðinni á Blönduósi og einn þeirra á Skagaströnd, en þó ekki öll þrjú á sama tíma.
Kathleen Vaughan dvaldi í textíllistamiðstöðinni á Blönduósi í júnímánuði árið 2016 og féll algjörlega fyrir svæðinu að eigin sögn. Dvölin í listamiðstöðinni veitti henni aukinn innblástur til listsköpunar. Verkefnið sem hún vann á meðan hún dvaldi þar er textílgöngukort sem ber nafnið Ísland: Jörð og himinn. Kathleen notaði jurtalitaða ull og annað garn til að sýna staðbundna reynslu sína á meðan hún dvaldi hér. Hún studdist við bæði stafræna tækni og útsaum til að tákna jörðina og hvernig hún ferðast um hana sem og lykkjulaga hreyfingar sólarinnar og tunglsins yfir jörðina og rammaði inn verkið með blúnduprjóni og hangandi steinum. Kathleen hafði aldrei áður upplifað 24 tíma birtu og orkuna sem henni fylgdi og var ákveðin í að koma aftur til Íslands. „Ég bý í þriggja milljóna borg, þar sem það getur verið hættulegt fyrir konur að vera á ferli. Um leið og ég kom á Blönduós fann ég öryggi sem veitti mér tækifæri til að tengjast fólkinu hérna á svæðinu mjög vel og fræðast um lífið á Íslandi og söguna.” segir Kathleen.
Um leið og Kathleen lauk dvöl sinni á Íslandi byrjaði hún að vinna að því að koma með nemendur sína til Íslands, svo að þeir fengju að upplifa það sem hún upplifði þegar hún dvaldi í listamiðstöðinni. Kathleen vildi að þau upplifðu náttúruna, gestrisni heimamanna og frelsið til að vinna að eigin verkum. Hún hefur lagt áherslu á kennslu utan kennslustofunnar, í hverfum í Montréal þar sem sagan spilar mikið inn í, svo nemendurnir læri af sögunni og geti nýtt hana í listsköpunina og skrif. Námskeiðið á Íslandi er framlenging af þessari nálgun.
Rachel Lin Weaver hefur dvalið bæði í listamiðstöðinni á Skagaströnd og á Blönduósi. Hún dvaldi í Nes listamiðstöð á tímabilinu 2013-2014 og tók þátt í verkefninu Weight of Mountains Filmmaking Residency program sem ætlað var listamönnum í kvikmyndagerð. Hún dvaldi einnig í textíllistamiðstöðinni á Blönduósi árið 2017 ásamt Lesley Duffield. Það var þá sem hugmyndin kviknaði að því að koma aftur með nemendahóp til Íslands sem myndi dvelja í listamiðstöð og fræðast um svæðið og vinna að list sinni. Þau skoðuðu skipulagið og getu svæðisins til að taka á móti nemendahópi og þau komust að þeirri niðurstöðu að Norðurland vestra væri kjörið til að taka þátt í verkefni af þessari stærðargráðu. Að auki var það þeim mikilvægt að þetta væri á svæði þar sem þau hefðu stuðningsnet, þ.e. vini og vandamenn sem þau höfðu kynnst á meðan á dvöl þeirra stóð. „Það var mér mjög mikilvægt að koma aftur hingað, með nemendur mína, til að þeir fengju að upplifa það sem ég hafði upplifað og þetta er einnig mín leið til að skila aftur til baka til samfélagsins, öllu því sem það hefur gefið mér,” segir Rachel.
Uppbygging námskeiðanna á báðum stöðum er með svipuðum hætti. Nemendurnir dvelja á svæðinu, sitja fyrirlestra, vinna að verkefnum og fræðast um svæðið. Einnig hafa þau töluvert frelsi til að ferðast um landið.
Textíllistamiðstöð á Blönduósi
Á Blönduósi dvelja nemendurnir í listmiðstöðinni sem staðsett er í Kvennaskólanum á Blönduósi í fjórar vikur. Námskeiðið gengur undir heitinu Imagining Iceland – Iceland Field School [þýðing blm. Að ímynda sér Ísland] og er samstarfsverkefni Concordia háskóla, Textílseturs Íslands og Þekkingarsetursins á Blönduósi. Mestur tími nemenda fer í það að sinna eigin verkefnum. Við skil á umsóknum um þátttöku í námskeiðinu þurftu nemendurnir að hafa grófa hugmynd um verkefni, sem þeir ætluðu að sinna á meðan á dvöl þeirra stæði. Nemendahópurinn samanstendur af nemendum í grunnnámi, meistaranámi og doktorsnámi, en öllum nemendum skólans bauðst að taka þátt í námskeiðinu. Þar má finna nemendur í listkennslu, rannsóknum í listum, listmeðferð, frjálsri listsköpun og tónlist en allir nemendurnir hafa bakgrunn í listsköpun og rannsóknum. Ekki hafa þó allir haft grunn í textíl en hafa lært mikið í gegnum stuttar vinnustofur þar sem farið hefur verið í spuna, prjón og vefnað. Nemendurnir hafa setið fyrirlestra og farið í stuttar ferðir m.a. til Guðrúnar Bjarnadóttur sem er sérfræðingur í jurtalitun, setið fyrirlestur hjá Ragnheiði Björk Þórsdóttur, sérfræðingi á sviði vefnaðar hjá Þekkingarsetrinu og Jóhönnu Erlu Pálmadóttur framkvæmdastjóra Textílseturs Íslands. Nemendurnir hafa einnig heimsótt Blönduvirkjun og fengið dýpri skilning á því hvernig orkan er búin til og nýtt á svæðinu ásamt því að heimsækja Hóla í Hjaltadal en þar má finna Kljásteinavefstað. Einnig hefur Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi verið nemendunum mikill innblástur.
„Ég tel það mjög mikilvægt fyrir samfélag eins og Blönduós að hafa þetta tækifæri að geta boðið listamönnum upp á að dvelja hér til styttri eða lengri tíma. Mannauðurinn hér er mjög mikill og margir tilbúnir til að leggja sitt að mörkum til að gera dvöl listamannanna ánægjulegri,“ segir Kathleen. „Við til dæmis aðstoðuðum við að skreyta ljósastaura á svæðinu með prjónagraffi, en síðustu ár hafa ljósastaurar á Blönduósi verið skreyttir með prjónuðu stauraskrauti, og við undirbúning fyrir Prjónagleði,“ bætir Kathleen við.
Nes listamiðstöð á Skagaströnd
Á Skagaströnd dvelja nemendurnir á gistiheimilinu Salthús og hafa námsaðstöðu í BioPol sem staðsett er í húsinu við hliðina. „Mér finnst það mjög gott að vinnuaðstaðan og gistiaðstaðan séu ekki á sama staðnum svo nemendurnir geti farið heim að loknum góðum vinnudegi,” segir Rachel. Þar vinna nemendur fjóra daga vikunnar og fá frí í þrjá daga til að þeir fái tækifæri til að ferðast um Ísland. „Við reynum að skipuleggja ferðirnar okkar þannig að við séum að ferðast hér á þessu svæði [innskot blm. Norðurlandi vestra], en nemendurnir geta ferðast út fyrir svæðið í sínum eigin frítíma. Við reynum að kynna svæðið fyrir þeim eins vel og við getum,“ segir Rachel. Á Skagaströnd gengur námskeiðið undir heitinu „Bio-Arctic Summer in Iceland” [þýðing blm. Norðurslóðalíf – Sumar á Íslandi] og er samstarfsverkefni Virginia Tech, Nes listamiðstöðvar og BioPol ehf. Nemendahópurinn samanstendur af nemendum í grunn- og meistaranámi í skapandi tækni en undir það fellur meðal annars kvikmyndagerð, ljósmyndun, tölvuleikjahönnun og sýndarveruleiki. Lögð er áhersla á að nemendurnir vinni verkefni á sviði sýndarveruleika, í kvikmyndagerð, auknum veruleika, skipulagningu á opnum svæðum og líflist á meðan þeir dvelja á Íslandi. Nemendurnir þurfa að vinna að þremur verkefnum meðan á dvöl þeirra stendur ásamt því að skrifa dagbókarfærslur.
„Kosturinn við að vera í listamiðstöð er að hér er fyrir frábært og hæfileikaríkt fólk sem dvelur í listamiðstöðinni sem nemendurnir geta lært eitthvað af og öfugt,” segir Rachel. „Nemendurnir voru kannski ekkert æstir í að fara á námskeið um prjónahefðir á Íslandi en um leið og þeir hittu aðra einstaklinga og náðu umræðu um efnið þá varð þetta áhugavert í þeirra huga. Nemendum hefur að mér finnst fundist þetta mjög skemmtileg upplifun,“ bætir Rachel við. Í tilefni af 10 ára afmæli Nes listamiðstöðvar hafa verið margar vinnustofur sem nemendurnir hafa geta tekið þátt í og hafa nemendurnir komið heim fullir af innblæstri til að sinna eigin listsköpun.
Vonandi er verkefnið komið til að vera
Kathleen og Rachel eru sammála um að svæðið sé fullkomið til að sinna verkefnum af þessari stærðargráðu. Fjarlægðirnar séu ekki miklar á milli staða, stutt sé að skreppa í búðina eða í sund. Listamiðstöðvarnar hafa sérfræðinga á sínum snærum sem búa yfir mikilli þekkingu og geta lagt mikið til verkefnisins. Einnig er það samfélagið sem vinnur með því en flest allir eru tilbúnir að taka þátt, gestrisni íbúa er ótrúleg og allir viljugir til að leggja sitt af mörkum til að nemendurnir geti unnið að verkefnunum sínum og fundið þann innblástur sem er þeim nauðsynlegur.
Námskeiðin hafa gengið mjög vel og eru nemendurnir og kennararnir ánægðir með hvernig til hefur tekist. En hvert er svo framhaldið?
„Mér finnst mjög mikilvægt að ég gefi til baka til samfélagsins, í skiptum fyrir allt sem það hefur gefið mér. Hérna hef ég eignast góða vini, unnið að frábærum verkefnum sem hafa gefið mér svo margt. Ef ég má ráða þá er þetta klárlega eitthvað sem ég mun gera aftur, með sama hætti eða með breyttu sniði,“ segir Rachel
Kathleen tekur undir orð Rachel og bætir við „Ég bind miklar vonir við það að þetta verkefni sé komið til að vera. Ísland og Kanada deila mikilvægri sögu, stórkostlegri náttúru og ég trúi því að við getum lært mikið hvort af öðru,” segir Kathleen að lokum.
Grein birtist í 25. tbl. Feykis.
/Lee Ann Maginnis
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.