Linnulausar árásir á strandveiðar

Eyjólfur Ármannsson skrifar:

Strandveiðar voru stöðvaðar 21. júlí sl. þrátt fyrir ítrekuð tækifæri stjórnvalda til að tryggja 48 veiðidaga á ári og óskir um það þá hafa stjórnvöld ekki gert það.
Stjórnvöld ákváðu að aflaverðmæti 35.089 tonna af loðnu færu til strandveiða til að reyna að tryggja 48 veiðidaga. Um 700 strandveiðimenn og fjölskyldur þeirra höfðu því lögmætar væntingar um að staðið yrði við 48 veiðidaga. Miðað við þorskígildisstuðul loðnu 0,36 gefur það ígildi 12.632 tonna af þorski. Einokun og vilji kvótahafa kom skýrt fram á skiptimarkaði en þar fengust 1.079 þorsktonn, einn tólfti af þorskígildisstuðli.
Fráleitt er að stjórnvöld beygi sig undir slíkan einokunarmarkað við ákvörðun á aflaheimildum til strandveiða. Það sýnir hve gallað fiskveiðistjórnunarkerfið er og augljóst hverjum er verið að þjóna.

Hinn 7. febrúar sl. spurði ég matvælaráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, á Alþingi hvort hún hygðist styðja frumvarp flokkssystur sinnar, Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, um að tryggja 48 strandveiðidaga með því að lögfesta þá og auka heimildir ráðherra til að flytja veiðiheimildir milli flokka innan atvinnu- og byggðakvótakerfisins. Svar ráðherrans var skýrt; NEI.

Frum­varpið vakti vænt­ing­ar meðal strand­veiðimanna og fé­lög þeirra víða um land lýstu yfir stuðningi við það. Ráðherrann hafði þá nýlokið við að skerða þorskveiðiheimildir til strandveiða um 1.500 tonn, fyrsta embættisverk hennar í nýrri ríkisstjórn.

Augljóst er að ráðherra sjávarútvegsmála vill hvorki leiðrétta fráleita niðurstöðu skiptimarkaðar né tryggja með lögum 48 strandveiðidaga. Það er í hróplegri andstöðu við fagurgala VG í Norðvesturkjördæmi fyrir kosningarnar sl. haust. Viljinn til að fylgja eftir eigin orðum þegar á valdastól er komið er enginn og stefnuleysið algjört.

Reynt er að skýla sér á bakvið fiskveiðistjórnarkerfið, þegar farið er að vilja sérhagsmuna og hann er skýr: „Samtökin [SFS] hafa ítrekað lýst þeirri afstöðu að hætta eigi strandveiðum“. „Samtökin leggja þunga áherslu á að aflamagn til strandveiða verði ekki aukið með neinum hætti á kostnað atvinnuveiðanna.“

Flokkur fólksins hefur barist með kjafti og klóm fyrir strandveiðum fyrir sjávarbyggðirnar. Fyrsta skrefið er að tryggja 48 veiðidaga á ári. Handfæraveiðar munu aldrei ógna fiskistofnum. Aflahámark á að ná til þeirra veiða sem ógna fiskistofnum. Efling strandveiða er barátta fyrir jöfnum búseturétti og rétti íbúa sjávarbyggðanna. Sjávarbyggðirnar eiga að fá að nýta sjávarauðlindina þannig að fjölskyldur sem búa þar geti lifað af fiskveiðum.

Fyrirsjáanleiki ríkisstjórnarinnar í stefnuleysi sínu er þannig að fyrir nýjan þingmann er forvitnin meiri hvað ráðherrar séu alltaf að gera í farsímum sínum í þingsal þegar þeir sjást við atkvæðagreiðslu en hvað þeir muni segja í ræðustól. Það segir eitthvað um innihaldsleysi stefnu ríkisstjórnarinnar og hvar hún er stödd.

______________________________

Höfundur er alþingismaður fyrir Flokk fólksins í Norðvesturkjördæmi.

eyjolfur.armannsson@althingi.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir