Lifi íslenskur landbúnaður

Atli Már með eldri sonarson sinn Veigar Má.MYND AÐSEND
Atli Már með eldri sonarson sinn Veigar Má.MYND AÐSEND

Atli Már Traustason er bóndi og frjótæknir á Syðri Hofdölum í Skagafirði. Hann er stúdent frá FNV og búfræðingur frá Hvanneyri, giftur Klöru Helgadóttur og eiga þau þrjú börn og tvö barnabörn. Á Syðri Hofdölum er rekið blandað bú,80 mjólkurkýr, sem stefna senn í 100, og uppeldi sem því fylgir og einnig talsverð nautakjötsframleiðsla,alls eru um 300 nautgripir á búinu.

Það er tímabundið fjárleysi vegna riðuniðurskurðar á bænum en það horfir til betri vegar með haustinu, flest var féðum 900 envarum 700 þegar skorið var niður 2020. Hross verðum við að eiga til að falla í fjöldann en það eru þónokkrir tugir til heimils að Hofdölum. Með búrekstrinum sinnir Atli kúasæðingum í hálfum firðinum flesta daga ársins og er það unnið í verktöku.

Er eitthvað búið að verið að byggja eða breyta eða laga undanfarið eða undanfarin ár? „Lífið gengur fínt í sveitinni, næg verkefni og þá er ekki yfir neinu að kvarta. Við erum alltaf eitthvað að dunda með hefðbundnum bústörfum. Nýtt fjós, rúmlega 2000 fermetrar var tekið í notkun 2019. Í framhaldi af því var síðan aðstaðan fyrir nautaeldið endurnýjuð og lagt áherslu á vinnuhagræðingu. Núna er síðan verið að breyta fjósinu aðeins, setja þar inn tvo nýja mjaltaþjóna og allt sem því fylgir. Við riðu niðurskurð þurfti að farga öllum innréttingum tengdum sauðfé og því þurfti að innrétta allt upp á nýtt. Þeirri vinnu er lokið á Svaðastöðum en þar eru útihús sem nytjuð eru ásamt landi. Þessi vinna stendur hins vegar yfir hér heima í fjárhúsunum, en þau taka 700 kindur og voru byggð árið 2003. Setja á grindagólf í hluta af húsunum og útbúa þar sauðburðaraðstöðu, áður voru þau öll á taði. Alltaf eitthvað stúss, þá er gaman.“

Nú er tíðarfarið búið að vera alls konar í sumar, hvernig er staðan hjá ykkur? „Tíðin í sumar hefur verið krefjandi, en allt hefst þetta haldi maður rétt á spöðunum. Það var minni uppskera úr fyrri slætti, í kringum 20%, en góð spretta hefur verið á umferð tvö það sem af er. Við erum langt komin með seinni slátt, miðvikudagar hafa verið drjúgir til heyskapar.

Það var ákveðið að setja kornið í rúllur þetta árið þar sem ljóst var að ekki næðist nægilegur þroski í það til að það svaraði kostnaði að standa í þreskingu, gengur bara betur næst. Heyfengur verður minni en undanfarin ár en samt nægur ef allt fer fram sem horfir.

Óbilandi bjartsýni og trú á því að matvæli sem við bændur erum að framleiða séu ein þau bestu í heimi eru verðlaunin fyrir langa vinnudaga og mikla viðveru, það er engin stytting vinnuvikunar í sveitinni.


Eruð þið bjartsýn á framhaldið? „Íslendingar eru forréttindapésar að hafa aðgang að miklum náttúruauðlindum, grænni orku sem við þurfum N.B. að virkja, öflugum heilnæmum landbúnaðarafurðum og miklum og góðum mannauði. Pössum okkur að líta ekki á þessa hluti sem sjálfsagða og verum auðmjúk gangnvart þessari einstöku aðstöðu okkar. Lifi íslenskur landbúnaður!“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir