Líf og fjör í Grunnskóla Húnaþings vestra

Ljós tendruð á jólatrénu við félagsheimilið á Hvammstanga sl. föstudag. MYNDIR AF HEIMASÍÐU GRUNN- OG TÓNLISTARSKÓLA HÚNAÞINGS VESTRA
Ljós tendruð á jólatrénu við félagsheimilið á Hvammstanga sl. föstudag. MYNDIR AF HEIMASÍÐU GRUNN- OG TÓNLISTARSKÓLA HÚNAÞINGS VESTRA

Það verður seint sagt að það ríki einhver lognmolla í grunnskólum landsins og krakkarnir og kennararnir eru alltaf eitthvað að sýsla. Þegar heimasíða Grunnskóla Húnaþings vestra er skoðuð má sjá að þar hefur verið líf og fjör í síðustu viku.

Á myndunum sem hér fylgja og eru fengnar af heimasíðunni má sjá nokkur skot frá því að kveikt var á jólatrénu við félagsheimilið á Hvammastanga í lok síðustu viku. Þá mættu slökkviliðsmenn í heimsókn til nemenda í 3. bekk og kynntu fyrir þeim eldvarnir og sýndu þeim tækjabílinn sinn.

Nemendur í 1. bekk hafa verið að þjálfa fínhreyfingar og hafa því verið að snúa snúrur, binda rembihnúta, þræða perlur og teikna og lita á efni. Eldri nemendur munu síðan aðstoða þá yngstu við að sauma úr efnunum en til stendur að festa bútana á myrkvunargardínur.

Þá fengu nemendur í dönsku það verkefni í liðinni viku að segja frá einhverju sem einkennir Danmörku eða telst vera danskt. „Svo átti að skila verkefninu til kennarans og kynna það fyrir bekknum með glærusýningu. Einn nemandinn tók þetta skrefinu lengra. Verkefnið hans fjallaði um danskt smørrebrød og svo færði hann Pálma og Valda, sem er stuðningsfulltrúi í bekknum,þetta gómsæta og sérlega fallega smørrebrød,“ segir í fréttinni. Pálmi og Valdi heldur betur heppnir!

Heimildir og myndir: Heimasíða Grunnskóla og tónlistarskóla Húnaþings vestra

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir