Lið Tindastóls sló út Subway-deildar lið Snæfells
Það var gleði og gaman í Síkinu í kvöld en sennilega þó ekki síður stress og naglanögun fram á síðustu sekúndu framlengingar þegar Tindastóll og Snæfell mættust í fjórða leik einvígis síns um réttinn til að spila um sæti í efstu deild. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en gestirnir náðu góðum kafla snemma í fjórða leikhluta, náðu 13 stiga forystu og virtust ætla að tryggja sér oddaleik í Stykkishólmi. Lið Tindastóls gafst ekki upp og náði að jafna í blálokin og tryggja sér framlengingu þar sem heimaliðið reyndist sterkara. Lokatölur 82-78 og rjúkandi stemning hjá Stólastúlkum.
Lið Snæfells var skrefinu á undan í fyrsta leikhluta og leiddi að honum loknum, 17-21. Það virtist smá skjálfti í heimastúlkum en Kasapi og Okoro fóru fyrir liðinu í sókninni. Allt var í járnum í öðrum leikhluta og lið Tindastóls náði fljótt að jafna leikinn. Þær náðu síðan góðum kafla sem lauk með því að Rannveig kom liðinu fimm stigum yfir, 31-26, en gestirnir svöruðu með því að gera sex síðustu stig fyrri hálfleiks og leiddu því 31-32 að honum loknum.
Stólastúlkur byrjuðu þriðja leikhluta betur en gestirnir og eftir fjögurra mínútna leik höfðu þær náð átta stiga forystu, staðan 42-34 eftir körfu frá Ingu Sólveigu. Einhver hefur nefnt að körfubolti sé leikur áhlaupa og leikurinn í kvöld var sönnun þess. Næstu níu stig voru nefnilega gestanna sem komust því einu stigi yfir, 42-43, en lið Tindastóls náði vopnum sínum og var yfir fyrir lokafjórðunginn, staðan 50-47.
Okoro, sem átti frábæran leik, gerði fyrstu stigin fyrir Stólastúlkur í fjórða leikhluta og kom þeim fimm stigum yfir. Þá kom hörmungarkafli þar sem gestirnir gerðu átján stig í röð! Staðan því 52-65 þegar fimm og hálf mínúta var eftir og allt virtist glatað. Tveir þristar frá Klöru Sólveigu með skömmu millibili kveiktu í heimaliðinu og virtist gefa þeim trú á verkefninu. Staðan var 65-72 þegar 1:40 var eftir. Okoro minnkaði muninn með tvisti áður en Kasapi skellti í þrist eftir stolinn bolta hjá Brynju. Okoro jafnaði síðan metin þegar 17 sekúndur voru eftir. Þá tóku gestirnir leikhlé og Jones reyndi skot rétt áður en leiktíminn rann út en ekki vildi boltinn niður. Lokatölur því 72-72 og því var framlengt. Framlengingin var æsispennandi en lið Tindastóls þó skrefinu á undan í skorinu. Á þessu kafla reyndist Brynja Líf hetjan en hún gerði átta af tíu stigum Tindastóls í framlengingunni og tryggði Stólastúlkum sæti í úrslitarimmunni.
Þar er ekki ljóst hver andstæðingurinn verður því KR vann lið Aþenu örugglega í kvöld og þar verður því oddaleikur.
Í liði Tindastóls var Okoro stigahæst með 24 stig en hún tók einnig 12 fráköst. Kasapi gerði 23 stig, Brynja Líf gerði 11 stig og tók átta fráköst og Vida var með níu stig og níu fráköst. Klara Sólveig gerði átta stig og þær 24 mínútur sem hún var á parketinu vann Tindastóll með 16 stigum. Í liði gestanna var Shaw atkvæðamest að venju með 25 stig og tólf fráköst.
- - - - -
Á síðu Körfuknattleiksdeildar Tindastóls á Facebook má sjá helling af frábærum myndum sem Davíð Már tók á leiknum >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.