Lið Kormáks/Hvatar úr leik í Mjólkurbikarnum
Lið Kormáks/Hvatar heimsóttir Fífuna í dag þar sem lið Augnabliks beið þeirra. Um var að ræða leik í 2. umferð Mjólkurbikarsins. Eftir ágæta byrjun fór allt í skrúfuna hjá gestunum og það voru heimamenn sem höfðu 5-2 sigur og ævintýri Húnvetninga í Mjólkurbikarnum því lokið þetta árið.
Húnvetningar byrjuðu fjórlega og Papa kom þeim yfir eftir níu mínútna leik. Fjórum mínútum síðar jafnaði Arnar Laudal metin og á 31. mínútu kom Guðni Rafn heimamönnum yfir. Staðan 2-1 í hálfleik.
Snemma í síðari hálfleik var leik nánast lokið þar sem Brynjar Óli kom liði Augnabliks í 3-1 á 48. mínútu og Arnór Daði gerði fjórða mark þeirra fimm mínútum síðar. Lið Kormáks/Hvatar gafst að sjálfsögðu ekki upp og Kristinn Bjarni gaf þeim von með marki á 57. mínútu. Gestirnir reyndu að sækja en Kópavogsliðið hélt boltanum vel og gaf fá færi á sér. Þeir gulltryggðu síðan sigurinn með öðru marki Arnars Laufdal á 90. mínútu eftir smá ævintýramennsku hjá Djuric í marki gestanna.
Það er þá ekki annað að gera fyrir lið Kormáks/Hvatar en að sleikja sárin og einbeita sér að upphafi Íslandsmótsins sem fer í gang fyrstu helgina í maí.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.