Lét eitt gott spark vaða í óæðri enda mótherja síns - Liðið mitt Sunna Ingimundardóttir
Sunna Ingimundardóttir, tannlæknir og brottfluttur Króksari, er Púllari af lífi og sál. Nú býr hún í útjaðri Kópavogs, eins nálægt náttúrunni og hægt er að vera í borg óttans, eins og hún segir sjálf. Hún er bjartsýn á gengi Liverpool þetta tímabil, eins og margir aðrir Púllarar, og teluur að liðið fari alla leið. Sunna svarar spurningum í Liðið mitt að þessu sinni.
Hvert er uppáhalds liðið þitt í enska boltanum og af hverju? -Það er Liverpool, Liverpool, Liverpool!. Ég er alin upp á heimili þar sem sannleikur er í hávegum hafður og pabbi sagði alltaf að Liverpool væri best. Hann sagði einnig að halda með öðru liði myndu teljast helgispjöll. Mamma hélt með Leeds en það fékk aldrei mikinn hljómgrunn. Þar sem ég tek við kyndlinum af frænda mínum, sem tók við síðustu áskorun, verð ég að koma því til skila að það var einnig faðir minn sem kom honum á rétta braut … þá braut sem maður gengur aldrei einn. Það eru margir í fjölskyldunni sem halda með Liverpool, enda einstaklega vel gefin fjölskylda.
Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? -Þetta er árið, án efa!! Þetta verður okkar ár!! Við förum alla leið, engin spurning.
Ertu sátt við stöðu liðsins í dag? -Mjög sátt.
Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði? -Já, já, já, já, en við vinkonurnar ræddum frekar um fegurð leikmanna á sínum tíma frekar en frammistöðu … minnisstæðir eru Michael Owen, Torres, Hyypia. En þá var metoo byltingin ekki byrjuð, svo þetta er algjörlega önnur ella í dag. Maður er meira að vinna í fólki með lága „fótboltagreindavísitölu“ og koma því á rétta braut. En þetta hafa aldrei verið alvarlegar deilur, bara skemmtilegar umræður.
Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar? -Það ku vera legendið Steven Gerrard. Ég hef alltaf haft miklar mætur á þeim meistara, hann hafði hjartað!
Hefur þú farið á leik með liðinu þínu? -Já, einn leik, sællar minningar. Þegar faðir minn var fimmtugur fór öll fjölskyldan á leik Liverpool vs Reading. Fyrir leik fórum við og borðuðum með eldri leikmönnum. Þegar komið var á völlinn var stemningin ólýsanleg. Reyndar var það svo að maðurinn minn, sem er gallharður Nallari, bjóst við að það myndi kvikna í honum þegar hann gekk inn á völlinn en það slapp fyrir horn. Ég hef ekki séð pabba spenntari og þegar „you´ll never walk alone“ var sunguð hélt sá gamli treflinum hátt á lofti og söng eins og sannur Heimis-maður! Það sluppu nokkur tár út við það augnablik. Við lentum undir 0-1 en leikurinn endaði 2-1 þannig að afmælisbarnið fór sátt heim. Við fengum líka að fara túr um Anfield, inn í búningsklefa leikmanna og leikmannastúkuna. Fengum að snerta „This is Anfield“ skiltið eins og sannir leikmenn. Fengum að skoða the Kop og safnið.
Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? -Ég hef átt þó nokkuð marga búninga í gegnum tíðina. Best var þó þegar frumburðurinn fæddist, pabbi var mættur daginn eftir með lítinn Liverpool galla á drenginn og var það hans fyrsta sængurgjöf.
Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið? -Mjög vel, enda tíðin góð. Þetta eru enn ungir og áhrifagjarnir hugar.
Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? -Nei!
Uppáhalds málsháttur? -Hláturinn lengir lífið … nema að maður drepist úr hlátri.
Einhver góð saga úr boltanum? -Ég fékk eitt rautt spjald á ferlinum en það var allt byggt á misskilningi. Það sumar gerðum við nú lítið annað en að keyra hringinn í kringum landið en við spiluðum á Egilsstöðum og Höfn. Ég var hafsent eins og alltaf áður, fékk aldrei mitt tækifæri sem center…. og er svo sem ekkert bitur yfir því lengur. En hvað sem því líður þá var ég að dekka eina stúlku sem spilaði ekki mjög drengilega. Ég var klipin, klóruð og man ekki betur en að báðar ermarnar hafi verið farnar af treyjunni minni áður en leiknum lauk, svo mikið var peysutogið. Það var langt liðið á leik og við höfðum yfirhöndina. Pirringur var farin að færast yfir mótherja okkar.
Það var svo þarna, þegar um 20 mín. voru eftir, að löng sending kom yfir á okkar vallarhelming. Hófst þá kapphlaup milli mín og drengskaps-lausu-stúlkunnar eftir boltanum. Hafði ég vinninginn og var fljót að senda boltann út af. Meðan á þessu kapphlaupi stóð hafði stúlku-kindin náð taki á vinstri ermi búningsins míns (hafði hún þá þegar rifið hægri ermi af, eða svo gott sem). Hún hafði svo fallið í grasið eftir að ég hreinsaði útaf og enn hélt hún í ermi mína. Stóð ég þá yfir henni með hálsmálið teygt langt til hliðar og bað hana vinsamlegast um að sleppa sem hún gerði ekki.
Var ég þá orðin frekar þreytt á þessu og lét eitt gott spark vaða í óæðri enda hennar. Dómarinn var þá fljótur að flauta og lyfta spjaldinu rauða. Sagði ég honum strax að þetta hefði verið hinn mesti misskilningur, hann átti aldrei að sjá þetta! En svo fór sem fór og ég gekk útaf í fótboltaskóm og ermalausum bol. Var ég þá í stuttan tíma þekkt á meðal leikmanna Tindastóls sem Sunna „spark-í-rass“ Ingimundardóttir ..... en eins og ég segi, hinn mesti misskilningur.
Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? -Nei, ég er nú svo saklaus ung stúlka, ég hef lítið verið að hrekkja um tíðina. Kannski einstaka tilfelli í skólanum þegar fólk skyldi feisbúk eftir opið, þá henti maður kannski í einn góðan status.
Spurning frá Sigurði Guðjóni: - Hver er maðurinn? Ég er fæddur í Birkenhead á Merseyside. Ég fékk samning hjá 3. deildarliði Bolton og fór með þeim upp í efstu deild áður en ég gekk til liðs við Liverpool, uppáhaldsliðið mitt frá því í æsku. Þar spilaði ég 139 leik og náði að festa mig í sessi í landsliðinu. Frá Liverpool gekk ég til liðs við Blackburn. Þaðan fór ég til Sunderland en endaði ferilinn heima í Liverpool borg hjá Tranmere.
Svar: -Þetta mun vera miðjumaðurinn eitursvali David Anthony Thompson.
Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? -Ég skora á Birgi Heiðar Jósepsson, sem er gallharður Arsenal maður. Látum hann færa rök fyrir sínu máli.
Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? -Hvaða lið þjálfaði Arsene Wenger á undan Arsenal?
Áður birst í 2. tbl. Feykis 2019
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.