Lengjubikarinn Tindastóll sigraði í öðrum leik sínum.
Tindastóll lék sinn annan leik í Lengjubikarnum á laugardag og var leikið við sameiginlegt lið Hamrana/Vina/ÍH.Leikurinn fór fram í Akraneshöllinni og okkar menn mættu sprækir til leiks og stjórnuðu leiknum allan tímann. Það var mikil barátta í leikmönnum, þeir eltu alla bolta og unnu sanngjarnan sigur 2-0
Byrjunarliðið var þannig: Gísli Sveinsson, Snorri, Bjarki, Böddi, Pálmi, Sævar, Gummi, Alli, Konni, Ingvi Hrannar og Fannar Örn.
Tindastóll byrjaði mun betur, pressaði andstæðinginn og náði yfirrtökum á miðjunni. Tindastólsmenn komust í nokkur ágæt færi á upphafsmínútunum en það var ekki fyrr en um miðjan hálfleikinn að Ingvi Hrannar kom okkar mönnum yfir. Sævar átti þá flotta sendingu fram á við, Ingvi skaust í gegnum vörn andstæðinganna og vippaði boltanum laglega í markið, yfir markvörðinn sem var kominn of langt út. Vel að verki staðið og Tindastóll kominn með forystu. Tindastólsmenn unnu boltann strax eftir að andstæðingurinn tók miðjuna, Ingvi Hrannar var aftur að verki og skaut frá um 35 metra færi á markið með hægri, smellhitti boltann sem fór í stöngina og inn og staðan orðin 2-0. Það má segja að mínúta hafa liðið á milli markanna. Svona var staðan í hálfleik.
Í seinni hálfleik hélt þetta áfram og Tindastóll hefði getað sett nokkur mörk en inn vildi boltinn ekki.
Gísli Sveins var góður í markinu og þurfti að grípa inní 2 - 3 sinnum í leiknum. Böddi og Bjarki áttu glimrandi dag í vörninni og Pálmi og Snorri skiluðu sínu vel. Sævar, Gummi, Alli, Konni og Ingvi Hrannar áttu miðjuna eins og hún lagði sig og komust allir vel frá sínum hlutverkum. Fannar Örn barðist vel og átti líka góðan dag.
Töluverðar skiptingar voru gerðar og komu afskaplega sprækir leikmenn inná; Hjörvar, Árni Arnars, Atli Arnars, Simmi, Bjarni Smári.
Um 25 manna hópur er fyrir sunnan en æft verður í dag og síðan æfingaleikur við Selfyssinga í fyrramálið kl. 09 í Kórnum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.