Lengi lifi rokkið - Gildran með tónleika í Gránu
Hljómsveitin Gildran fagnar á næsta ári 40 ára afmæli sínu og nú hafa Skagfirðingar og nærsveitungar tækifæri til að mæta í Gránu nk.laugardagskvöld 18. maí og hefjast tónleikarnir kl. 20:30. Trommari Gildrunnar, Kalli Tomm, sem fæddur er og uppalinn í Mosfellssveit og hefur búið þar meira og minna öll sín ár, er nú búsettur á Hofsósi. Feykir heyrði í nýbúanum á Hofósi og tók tal af honum í tilefni flutninga og komandi tónleika.
Kalli kynntist einnig eiginkonu sinni, Líneyju Ólafsdóttur, í Mosfellsbæ og þar bjuggu þau og ólu upp börnin tvö, Ólaf og Birnu. „Árið 2019 fluttum við hjónin alfarið í paradís fjölskyldunnar til margra ára í Kjósina við Meðalfellsvatn. Þar höfum við fjölskyldan átt margar af okkar bestu stundum. Það var svo í lok síðasta árs að við hjónin fluttum hingað á Hofsós og bar það nú nokkuð skjótt að,“ segir Kalli. „Það vildi þannig til að konan mín slasaðist illa á fæti og það var engin möguleiki fyrir okkur að búa í Kjósinni sökum erfiðs aðgengis á heimili okkar, engin sjúkrahótel laus í Reykjavík og nágrenni. Fluttum við því inn á heimili sonar okkar og tengdadóttur á Hofsósi (þau höfðu nú reyndar lengi vel suðað í gamla settinu að koma) og höfum verið hér síðan alsæl,“ segir Kalli.
„Ég fékk strax vinnu við mötuneyti skólans, aukavaktir í sundlauginni og tók að mér tímabundna kennslu við tónlistarskólann. Nú starfa ég í grunnskólanum og er alsæll og við hjónin bæði. Við erum komin með húsnæði og erum jafnvel að spá í kaup á því ef allt gengur upp. Þvílíkt samfélag og samstaða.“
Gildran einstakur félagsskapur
„Ég hef nú starfað við ýmislegt um dagana en svo eitthvað sé nefnt hefur tónlistin og hljómsveitin mín Gildran, sem fagnar á næsta ári fjörutíu ára afmæli, átt hug minn allan. Já, Gildran er upp á ár jafngömul sambúð okkar Línu. Ég stundaði nám í trommu - og slagverksleik um nokkurra ára skeið í Tónlistarskóla Reykjavíkur og FÍH. Þar að auki lauk ég námi í bókbandi við Iðnskólann í Reykjavík. Ég stofnaði og ritstýrði bæjarblaðinu Mosfellingi í nokkur ár, það er enn gefið út og nýtur mikilla vinsælda. Það má eiginlega segja að tilneyddur hafi ég selt það þegar ég var plataður í pólitíkina í Mosó. Það hefði ekki verið trúverðugt að reka og ritstýra óháðu og vinsælu bæjarblaði og vera í pólitíkinni um leið. Ég tók pólitíska slaginn og var í átta ár forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar. Það var einstaklega skemmtilegur og lærdómsríkur tími. Þess má svo geta að í tímabundnu fríi Gildrunnar gaf ég út tvær sólóplötur, Örlagagaldur árið 2015 og Oddaflug 2017,“ segir trommarinn.
Hann segir að Gildran hafi verið stofnuð árið 1985 en árin þar á undan hafði hann, ásamt félögum sínum, Birgi Haraldssyni, söngvara og Þórhalli Árnasyni bassaleikara, starfað frá árinu 1977 undir hinum ýmsu hljómsveitanöfnum. „Skömmu síðar gekk gítarleikarinn, Sigurgeir Sigmundsson, til liðs við okkur og við erum enn að. Plöturnar okkar eru orðnar býsna margar og enn erum við að spekúlera í nýju efni og höfum verið að spila talsvert, bæði á síðasta ári og nú á þessu ári, einnig eftir nokkurra ára hlé. Nú síðast á Austurlandi og hér á Norðurlandi. Einstakar og hlýjar móttökur hvar sem er um landið hlýja gömlum refum að innstu hjartarótum.
Þó ég segi sjálfur frá er Gildran einstakur félagsskapur og hljómsveit sem hefur aldrei reynt neitt við tískustrauma eða tíðaranda, við höfum bara gert það sem viljum og allir verið samstíga í því. Vissulega hefur slík tilraunastarfsemi bitnað t.d. mjög mikið á spilun í útvarpi en eftir standa plötur og tónlist sem stendur af sér alla tíma. Við höfum samt átt vinsæl lög sem hafa meira að segja náð toppsætum á vinsældalistum útvarpsstöðva.“
Blaðamanni Feykis lék forvitni á að vita hvað Kalli hlustaði á í uppvextinum og til að gera langa sögu stutta, eins og Kalli kemst að orði, þá hlustar hann á allt mögulegt og hefur alltaf gert. Þau hjónin hlusta til dæmis mikið saman á tónlist. „Klárlega eitt af áhugamálum okkar,“ bætir hann við.
Hafa hitað upp fyrir margar heimsfrægar hljómsveitir
„Þegar ég var barnungur drengur var herbergi mitt betrekkt plakötum af hinni heimsfrægu hljómsveit Uriah Heep og ég klippti meira að segja út mynd af trommuleikara þeirrar hljómsveitar og límdi á mitt fyrsta trommusett. Ég sá ekki sólina fyrir þessari mögnuðu hljómsveit. Með öðrum orðum, átrúnaðargoð. Fljótlega eftir að Gildran var stofnuð og ég bjó enn í foreldrahúsum hringdi síminn á heimili foreldra minna. Ég svaraði og í símanum var maður sem talaði ensku og sagðist umboðsmaður hljómsveitarinnar Uriah Heep. Hann sagði hljómsveitina vera að koma til Íslands og vilja fá Gildruna til að hita upp. Það mátti engu muna að hann skellti á mig, því svo lengi vel í samtalinu sagði ég svo oft við hann að þetta væri grín. Á síðustu stundu trúði ég honum, því greinilega mátti heyra í þá daga að símtalið kom frá útlöndum. Ég hringdi að sjálfsögðu strax í strákana sem vissu allt um aðdáun mína á þessari hljómsveit og þeir sögðu: Hvernig getur þú látið plata þig svona Kalli!?!“
Gildran hefur verið svo heppin að fá að hita upp fyrir margar heimsfrægar hljómsveitir sem hafa sótt Ísland heim. Þar á meðal fyrir Uriah Heep, Status Quo, Jehtro Tull og Nazareth. „Allt hljómsveitir í miklu uppáhaldi hjá okkur félögum. Það er mögnuð tilviljun,“ segir Kalli. „Upp úr öllu stendur samt alltaf einstakur félagsskapur og vinátta okkar Gildrufélaga,“ segir Kalli að lokum.
Legni lifi rokkið og óhætt að segja að rokkarar hér allt um kring mega ekki láta þessa tónleika framhjá sér fara.
Myndin hér fyrir neðan er tekin í Kjósinni af Kalla og fjölskyldu
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.