Leita að hryssu í Skagafirði

Hjónin í Hólshúsum í Eyjafirði leita nú logandi ljósi að þriggja vetra hryssu í Skagafirði eftir að það uppgötvaðist í vor að þau hefðu fengið rangt tryppi eftir vetrarfóðrun fyrir tveimur árum.

Forsaga málsins er sú að tvö veturgömul tryppi sem voru í vetrarfóðrun í Eyjafirði árið 2008, víxluðust þegar þau voru sótt. Fer annað tryppið í Hólshús en hitt endar í Skagafirði og töldu eigendur sig vera með sín réttu hross og er það svo þangað til í vor. Þá á að fara að temja hryssuna í Hólshúsum en fljótlega vaknar grunur um að ekki sé um rétt hross að ræða. Tryppin voru einungis örmerkt og þegar merkið var skannað kom í ljós að þau voru með skagfirska tryppið í höndunum. Setja þau sig í samband við skagfirska bóndann sem sagði farir sínar ekki sléttar því hann hafi ekki fengið tryppið sitt í réttir haustið eftir en það hafði gengið í Unadalnum um sumarið. Taldi hann að það hefði farist og afgreiddi málið þannig.

Nú, hins vegar þegar þessi hrossavíxl eru komin í ljós vilja menn ganga úr skugga með það hvort einhver ruglingur hafi átt sér stað í réttunum og einhver hafi dregið umrætt tryppi í misgripum og biðla til bænda sem drógu hross í Unadalsrétt haustið 2008 að kanna hvort þriggja vetra brún örmerkt hryssa leynist í stóði þeirra. Þeir sem einhverjar upplýsingar geta gefið um málið eru beðnir að hafa samband við Hólmgeir eða Birnu  í Holtshúsum í síma 463-1490

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir