Leikstjórinn fullur tilhlökkunar fyrir frumsýningu
Sunnudaginn 28.apríl nk. frumsýnir Leikfélag Sauðárkróks Litlu hryllingsbúðina. „Sívinsælt verk sem sem fólk þreytist seint á að koma í leikhús til að upplifa,“ segir Valgeir Skagfjörð sem leikstýrir verkinu. Feykir heyrði hljóðið í leikstjóranum sem er sagðist vera sultuslakur fyrir frumsýningunni og fullur tilhlökkunar að leyfa áhorfendum að njóta sýningarinnar.
Valgeir Skagfjörð er Reykvíkingur sem útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands 1987 og var sjálfstætt starfandi leikhúslistamaður lengst af fyrir utan tvö ár hjá Leikfélagi Akureyrar og nokkur ár í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu. Velgeir hefur skrifað leikrit, samið tónlist fyrir leikhús og leikstýrt bæði í áhugaleikhúsi og atvinnuleikhúsi. „Ég á þrjár dætur og eitt kvár. Tvennt er starfandi við sviðslistir og ein dóttirin er söngkona og lagahöfundur,“ segir Valgeir.
Frá því Valgeir útskrifaðist sem leikari hef hann bætt við sig kennaranámi, höfuðbeina- og spjaldshryggsmeðferð, markþjálfun og ýmsu hagnýtu héðan og þaðan. „Ég er hjarthlýr gaur sem er fæddur í nautsmerkinu og elska útiveru, ferðalög, góðan mat, fjallgöngur og fagrar listir. Ég bý í Hvergerði með kærustunni minni sem heitir Edda Bryndís Ármannsdóttir. Hún styður mig í öllu sem ég tek mér fyrir hendur, “ segir Valgeir.
Sérlega ánægjulegt að vinna með LS
Valgeir er að leikstýra á Sauðárkróki í fyrsta skitpi og segir það hafa verið sérlega ánægjulegt að vinna með því hæfileikaríka og reynda fólki hjá Leikfélagi Sauðárkróks.
„Síðustu ár hef ég verið að taka aftur til við leikstjórn en þar áður var ég framhaldsskólakennari hjá Fjölsmiðjunni á Höfuðborgarsvæðinu. Ég var síðast á Ólafsfirði að vinna með Leikfélagi Fjallabyggðar, þar áður með Leikfélagi Húsavíkur og Leikfélagi Fljótsdalshéraðs,“ segir Valgeir svo það er óhætt að segja að hann hafi komið víða við á farsælum ferli.
Litla Hryllingsbúðin er sívinsælt verk og fólk þreytist seint á að koma í leikhús til að upplifa þetta skemmtilega verk. Það fjallar um umkomuleysingjann Baldur sem er að vinna í niðurníddri blómabúð í vafasömu hverfi hjá geðstirðum eiganda hennar. Þar vinnur einnig veraldarvön stúlkukind sem er að reyna að skapa sér líf en er því miður í ofbeldissambandi með sadískum tannlækni. Það verða straumhvörf í lífi Baldurs þegar hann uppgötvar nýja plöntu sem á eftir að hafa afdrifarík áhrif á líf hans og allra annarra í verkinu. Hér takast á ástir, gróðahyggja, glæstar vonir, gæfa og gjörvileiki. Um verkið hverfist svo tónlistin sem er ekki af verri endanum. Hún er samin af Alan Menken sem er líklega þekktastur fyrir tónlist sína við stórar og vinsælar teiknimyndir frá Disney. Nægir þar að nefna Aladdín, Hringjarann frá Notre Dame, Fríðu og Dýrið, Litlu Hafmeyjuna og fleiri verk sem liggja eftir hann.
Valgeir hefur áður sett litlu Hryllingsbúðina á svið. Það gerði hann með Skagaleikflokknum á Akranesi 2019. „Það er mjög gaman að koma að þessu verki aftur og enn meira gaman að fá tækifæri til að nálgast það á nýjan hátt með nýju fólki,“ segir Valgeir. En honum leist strax vel á leikarana og þeim tókst svo sannarlega að koma honum á óvart. „Margt ungt hæfileikafólk lýsti yfir áhuga á því að vera með og hér er valinn maður í hverju rúmi. Æfingar hafa gengið eins og best verður á kosið og nú þegar hillir undir frumsýningu þá er ég sultuslakur, en um leið fullur tilhlökkunar að leyfa fólki að njóta sýningarinnar.“
Með helling á prjónunum
Áhorfendur mega eiga von á frábærri skemmtun í bland við hinn kómíska hrylling sem verður á boðstólum. Þeir mega einnig eiga von á því að hrífast með öllum sem koma til með að birtast á sviðinu í Bifröst, sem kemur til með að nötra gafla á milli. Það mun hrikta í öllum stoðum.
Að lokum spurði blaðamaður leikstjórann hvernig Skagafjörðurinn hefði farið með hann og hvað væri næst á dagskrá hjá honum - „Það hefur farið prýðlega um mig hér í Skagafirðinum. Veturinn hefur að vísu verið þaulsætinn en vinnan með fólkinu hefur gert útlegðina fylliega þess virði. Næst á dagskrá er að koma sér suður til Malaga á Spáni til að hlaða batteríin fyrir næstu verkefni. Ég er að reyna að skapa mér rými til að skrifa bók og þegar ég kem heim frá Malaga þá hefjast viðræður um hvort kvikmyndahandrit sem ég hef verið að skrifa í hjáverkum í nokkur ár verður að bíómynd einhvern tíma í nálægri framtíð. Svo bíður eftir mér að taka upp eldri sýningu sem ég skrifaði fyrir Stopp-leikhópinn um uppvaxtarár Séra Hallgríms Péturssonar hér í Skagafirði. Sú sýning verður tekin upp í haust en hún var farandsýning sem fór um allt land árið 2016. Svo kannski fer ég aftur eitthvert út á land til að leikstýra ef einhver leikfélög vilja fá mig til starfa. Ég er alltaf tilbúinn í ný ævintýri, “ segir Valgeir Skagfjörð að lokum.
Blaðamaður fór og tók myndir af leikurum á rennsli fyrr í vikunni og fullyrðist það hér með að þetta er sýning sem þið viljið ekki missa af.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.