Leikskólinn Ársalir á Sauðárkróki einn af fjórum á leið í verkfall ef ekki næst að semja
Kennarar eru nú samningslausir og hafa samþykkt verkfall í alls níu skólum: fjórum leikskólum, þremur grunnskólum, einum framhaldsskóla og einum tónlistarskóla. Þá er í skoðun að boða til atkvæðagreiðslu um verkfall í einum framhaldsskóla til viðbótar.
Formaður Kennarasambands Íslands vill að laun kennara séu sambærileg við laun háskólamenntaðra sérfræðinga á almenna markaðnum.
Einn af þessum fjórum leikskólum er leikskólinn Ársalir á Sauðárkróki og eru verkföll áformuð 29. október hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma. Bryndís Lilja Hallsdóttir Sviðstjóri hjá Fjölskyldusviði Skagafjarðar segir það ljóst að ef til verkfalls kemur í Ársölum hafi það veruleg áhrif í samfélaginu.
Öll aðildarfélög KÍ hafa myndað eina sameiginlega viðræðunefnd um jöfnun launa milli markaða enda er það verkefni sameiginlegt forgangsmál allra samninganefnda KÍ. Formaður Kennarasambandsins tilkynnti ríkissáttasemjara að þessi viðræðunefnd komi fram fyrir hönd allra aðildarfélaga KÍ í komandi viðræðum um jöfnun launa.
Þessi staða markar þáttaskil í deilunni og kallar á samstöðu og styrk alls Kennarasambandsins. Við höfum sýnt það að við ætlum að nýta þann kraft sem býr í heildinni. Við verðum tilbúin að ná árangri með þeim ráðum sem þarf, enda algerlega ljóst að kominn er tími á að efna loforð um jöfnun launa. Nú er svo sannarlega kominn tími til að fjárfesta í kennurum, ráðgjöfum og stjórnendum. Þetta kemur fram á heimasíðu www.ki.is
Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar í Karphúsinu í dag og mætir þá viðræðunefnd Kennarasambandsins sem er skipuð formönnum aðildarfélaganna sjö og formanni KÍ, til fundar með samninganefndum sveitarfélaga og ríkisins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.