Leikfélagið 121 árs í gær

Eyþór Stefánsson

Í gær 13. apríl, voru slétt 121 ár frá því að Leikfélag Sauðárkróks var stofnað. Þetta var níu árum áður en þeir stofnuðu leikfélag í Reykjavík. LS starfaði af miklum móð í tvo áratugi, en lagðist svo í dvala.

 

 

Frá þessu er sagt á heimasíðu Leikfélagsins. Það var svo endurreist árið 1941 og hefur síðan verið burðarásinn í skagfirsku leiklistarlífi. Í ár höldum uppá tímamótin með því að sýna á Sæluviku verkið Frá okkar fyrstu kynnum – 120 ár í sögu leikfélags, eftir Jón Ormar og Guðbrand Ægi. Auk þess verður gefið út afmælisrit sem Unnar Ingvarsson hefur umsjón með.

 

Frá okkar fyrstu kynnum skiptist í tvennt og nefnist fyrrihlutinn: Góðum vinum fagnað. Þar eru atriði úr Skugga-Sveini, Manni og konu, Pilti og stúlku, Gullna hliðinu og Íslandsklukkunni, svo eitthvað sé nefnt. Eftir hlé hefst Þokkaleg þvæla, en í þeim hluta er sýnt úr Saumastofunni, Þreki og tári og fleiri skemmtilegum verkum. Hljómsveit og kór sjá um tónlist og söng í stykkinu. Frumsýning er 26. apríl og aðeins 10 sýningar fyrirhugaðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir