Laxveiðitímabilið á enda komið
Á huni.is segir að veiði í laxveiðiánum í Húnavatnssýslu er að ljúka þessa dagana. Mun fleiri laxar hafa veiðst í helstu laxveiðiám sýslnanna í sumar, í samanburði við síðustu ár. Miðfjarðará er komin í 2.458 laxa en í fyrra veiddust 1.334 laxar í ánni. Laxá á Ásum er komin í 1.008 laxa en í fyrra endaði hún í 660 löxum. Þetta er besta veiði í ánni síðan 2017. Víðidalsá stendur í 789 löxum en í fyrra veiddust 645 laxar í ánni og Vatnsdalsá er með 616 veidda laxa í samanburði við 421 í fyrra.
Mestu vonbrigðin í laxveiðinni í Húnaþingi er Blanda og Svartá. Aðeins hafa veiðst 327 laxar í Blöndu og 109 í Svartá. Laxveiði í Blöndu hefur verið léleg síðustu ár og þá sérstaklega í samanburði við árin 2004 til 2017 þegar meðalveiði var um 2.000 laxar á ári. Meðalveiði síðustu sjö ár í Blöndu hefur verið 530 laxar þannig að munurinn er mikill. Svipaða sögu má segja um Svartá en þar hefur meðalveiði síðustu sjö ár verið 173 laxar en á tímabilinu 2004-2017 var meðalveiðin 337 laxar á ári.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.