Laufskálarétt og boðið heim að Hólum

Það er alltaf gaman á Laufskálarétt. Frá réttinni árið 2012. Ljósm./BÞ
Það er alltaf gaman á Laufskálarétt. Frá réttinni árið 2012. Ljósm./BÞ

Það er heilmikið um að vera í kringum Laufskálarétt fyrir hestaunnendur en þétt dagskrá alla helgina. Það má segja Laufskálaréttarhelgin sé sannkölluð hátíð hestamanna þar sem fólk hvaðanæva af landinu koma til að fylgjast með réttarstörfum og samgleðjast.

Á föstudagskvöld verður stórsýning og skagfirsk gleði í reiðhöllinni Svaðastöðum. Þá ætlar m.a. Stefán Birgir Stefánsson að mæta með heimaræktuðu hryssuna Eldborg frá Litla-Garði, fjórir heimsmeistarar mæta á svæðið, hreppamenn ætla að taka lagið og ýmislegt fleira. Húsið opnar kl. 20 og gleðin hefst kl. 20:30.

Sjálfur réttardagurinn hefst kl. 10 hjá sjálfboðaliðum þegar smölun stóðsins hefst. Stóðið verður rekið niður um kl. 12 og réttarstörf hefjast kl. 13.

Fyrsti spretturinn á landsmótsvellinum

Landsmót hestamanna býður alla velkomna heim að Hólum þegar réttarstörfum í Laufskálarétt lýkur þar sem boðið verður upp á lifandi tónlist og rjúkandi kjötsúpu að hætti skagfirskra hestamanna. Hægt er að koma við hvenær sem er til að skoða þær framkvæmdir sem hafa verið í gangi en formleg dagskrá hefst kl. 16:00 með stuttum ávörpum. Að þeim loknum verður fyrsti spretturinn farinn á nýja vellinum og farið í skoðunarferð um svæðið. Á meðfylgjandi myndum, sem teknar voru sl. mánudag, má sjá hvernig landsmótssvæðið hefur tekið miklum breytingum undanfarið.   

Um kvöldið verður hið sívinsæla Laufskálaréttarball og hefst það kl. 23 í  reiðhöllinni Svaðastöðum. Hljómsveitin Von ætlar að halda uppi stuðinu, ásamt stórsöngvurunum Eyþóri Inga, Magna Ásgeirs og Ölmu Rut. Vakin er athygli á því að aldurstakmark er 16 ár og engin bjórsala er á staðnum.  

Um helgina verður einnig opið lengur í sundlaugum, trúbadorar föstudags- og laugardagskvöld, opin hrossaræktarbú, fullt af góðum mat, söngur og gleði að hætti Skagfirðinga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir