Landsþing Frjálslynda flokksins og Hermundur Rósinkranz
Sigurjón Þórðarson ritaði á bloggsíðu sinni í gær færslu þar sem hann fjallar um fyrirhugað Landsþing Frjálslyndaflokksins sem halda á í Stykkishólmi 13 - 14 mars. Þótti honum dagsetningin föstudagurinn 13/3 afleit og hafði því samband við Hermund Rósinkranz talnaspeking.
Í bloggfærslu Sigurjóns segir; - Það sem ég hafði mestar áhyggjur af vegna landsþingsins var dagsetningin, þ.e. að hefja það föstudaginn þrettánda þriðja. Þess vegna tók ég upp símann og sló á þráðinn til Hermundar Rósinkranz og lýsti áhyggjum mínum. Hermundur huggaði mig með því að dagsetningin væri ekki slæm og gæti verið góð til umskipta og mikilla breytinga.
Hermundur hefur oftar en ekki reynst sannspár um framvindu mála. Mér kæmi því ekki á óvart þótt það yrðu mikil umskipti og meiri slagkraftur í framhaldi af þinginu.
Þá segir hann jafnframt í upphafi færslunnar; -Landsþing Frjálslynda flokksins verður haldið á Snæfellsnesinu 13.-14. mars næstkomandi. Satt best að segja var ég ekkert áfjáður í að halda þingið í Stykkishólmi en fyrst það var einlægur vilji okkar ástsæla leiðtoga Guðjóns Arnars Kristjánssonar lagðist ég ekki hart gegn því, enda á ég fjölmarga ættingja, vini og kunningja á nesinu þar sem ég er „kominn af vondu fólki“ sem hefði vafalaust gaman af að líta við á landsþinginu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.