Landsmótið 1970; aldarandi, aðstæður og harmleikurinn á Þingvöllum - Kristinn Hugason skrifar
Það er með ólíkindum hversu oft mælikvarðar dagsins í dag eru settir á löngu liðna atburði. Það er því ekki úr vegi að draga hér upp mynd af því við hvaða aðstæður landsmótið 1970 fór fram.
Tíðarfar var slæmt, árin 1965 til 1971 voru samfelld hafísár. Stórerfiðleikar voru í efnahagsmálunum, verð á sjávarafurðum hríðféll á mörkuðum, auk þess sem síldveiðar drógust saman og brugðust algerlega frá 1968. Þessu samfara riðu gengisfellingar yfir með tilheyrandi verðbólgu, þó sá eldur væri ekki mikill þá miðað við það sem átti eftir að verða. Í landinu var þó stjórnmálalegur stöðugleiki; viðreisnarstjórnin, samstjórn Sjálfstæðis- og Alþýðuflokks, sat frá 1959 til 1971.
Víðtækar efnahagsumbætur sem stjórnin beitti sér fyrir og uppbygging orkufreks iðnaðar bjargaði því sem bjargað varð. Auk þjóðmálaforystu dr. Bjarna Benediktssonar sem áður hafði verið afar umdeildur stjórnmálamaður sem utanríkisráðherra en nú orðinn forsætisráðherra: „Hann vann þá meira að innanlandsmálum og stuðlaði að samkomulagi með mönnum og stéttum.“ (Heimir Þorleifsson, Frá einveldi til lýðveldis, 1973). Á árunum 1969 til ´70 sá orðið rofa til í efnahagsmálunum og hinn áður mjög svo umdeildi stjórnmálamaður, Bjarni Benediktsson, var kominn í hlutverk landsföðurins.
Fyrsti skipulegi landsmótsdagurinn var föstudagurinn 10. júlí en tvo dagana þar á undan var dagskráin einföld: „Kl. 10:00 Sýningarhross skoðun og starfa dómnefndir allan daginn báða dagana.“ Téðan föstudag átti dagskráin að hefjast kl. 10.00 með sýningu góðhesta og kynbótahrossa skv. skrá en ekki reyndist unnt vegna veðurs að hefja mótið fyrr en kl. 7 um kvöldið með undanrásum kappreiða en kvöldvakan var felld niður vegna þess hörmulega slyss að á öðrum tímanum aðfaranótt föstudagsins kom upp eldur í Konungsbústaðnum á Þingvöllum og fórust þar þjóðarleiðtoginn Bjarni Benediktsson, eiginkona hans og dóttursonur. Mikill harmur er kveðinn að íslenzku þjóðinni“ segir á forsíðu Vísis þann dag. Vitaskuld kom þetta eins og reiðarslag yfir hestamenn sem voru að búast til landsmótshalds í nágrenninu, ekki síður en aðra landsmenn. Í Vísi var veðrinu lýst svo: „Mjög kalt var á Þingvöllum í gærkvöldi, norðan hávaðarok, slyddubylur og voru fjöll grá niður í fjallsrætur.“
Í grein um mótið í Morgunblaðinu þriðjudaginn 14. júlí segir: „Landsmót hestamanna í Skógarhólum fór fram síðari hluta vikunnar í misvondu veðri, allt frá stormi á fimmtudag og síðan slyddu og rigningu fram á föstudagskvöld og upp í það skársta, sem var aðgerðarlaust veður fyrri hluta laugardags og sunnudags, sem þó brátt breyttist í rigningu.“ Síðar í greininni segir frá rifnum tjöldum o.fl.þ.h. en um aðbúnað hestanna segir þetta: „Ekkert varð að hestum, sem voru í ágætum girðingum og var þeim gefið aukalega nýþurrkað hey.“ Þetta segir meira en mörg orð um aðbúnað manna og hesta í tjöldum og sýningahrossin saman í hólfi, þ.e. kynbótahryssur, góðhestar og kappreiðahross en stóðhestar voru hýstir, annað enda ómögulegt. Ferðahross voru svo í öðru hólfi. Kerrur voru á þessum tíma óþekktar eða svo gott sem, því ekki skal þvertekið fyrir að einstaka yfirbyggð jeppakerra hafi ekki verið til. Hross voru hins vegar iðulega flutt á vörubílum með háum skjólborðum þar sem segl var strengt yfir. Nútíma vellir voru óþekktir en brautir útmældar þar sem náttúran sjálf skapaði aðstæður á melum og harðbalagrundum.
Þá er rétt að geta þess mikla mannfjölda sem sótti mótið en yfirskrift áður tilvitnaðrar greinar í Morgunblaðinu er: „10 þúsund manns og 4 þúsund hestar – á landsmóti í misvondu veðri“. Þetta þýðir að tæp 5% þjóðarinnar mættu á mótið sem jafngildir að nú myndu gestir á landsmótum vera rétt tæp 18 þúsund (!)
Mótið sjálft, keppnisgreinar og kynbótasýningar
Kappreiðarnar héldu sessi sínum á þessu móti sem eitthvert megin aðdráttarafl og spennuatriði mótanna en áður hefur þessari sögu allri verið gerð góð skil í greinaflokki þessum. Hið sama gildir um góðhestakeppnina en á þessu móti var í fyrsta sinn keppt í tveimur flokkum: Flokki alhliða gæðinga (A-flokki) og í flokki klárhesta með tölti (B-flokki). Háfeta-bikarinn var því veittur í fyrsta sinn.
Í forskoðun fyrir mótið voru metnir 80 stóðhestar og 170 hryssur. Af þeim náðu 46 stóðhestar inn, þar af sjö með afkvæmum og 77 hryssur, þar af níu með afkvæmum eða 123 kynbótahross alls. Vissulega eru þetta lágar þátttökutölur en aðstæður voru þá allt aðrar; hestamennska og hrossarækt átti í vök að verjast, heildarfjöldi hrossa í landinu var vel innan við 40 þúsund, ræktun iðulegast í smáum stíl og atvinnumennska í greininni nær óþekkt. Forskoðun var jafnframt mikið harðsóttari en síðar; vallaraðstæður afleitar, vegir lakir og samgöngutæki léleg, metið á nútíma mælikvarða. Afkvæmasýningar voru jafnframt margar m.v. einstaklingssýningar, einkum þó hjá hryssum. Skýringin er sú að verið var að laða menn að þátttöku í ræktunarstarfinu, einn þáttur í því var að afkvæmasýna stóðhryssur sem gefið höfðu gott og taka þær þar með inn í ættbók BÍ, í virka ræktunarkjarnann.
Efsti stóðhesturinn með afkvæmum var Neisti frá Skollagróf (IS1959188200), nr. 587 í ættbók BÍ og hlaut Sleipnisbikarinn. Vinnandi Faxabikarsins, efstur í eldri flokki stóðhesta, var Sörli frá Sauðárkróki nr. 653 (IS1964157001) sem er einn af sporadrýgstu stóðhestum ræktunarsögunnar. Í yngri flokki stóð efstur Þokki frá Bóndhól nr. 664 (IS1966136635), samansúrraður hestur úr ræktun Skuggafélagsins, reyndist hann mislukkaður til kynbóta.
Glettubikarinn hlaut, efsta hryssan með afkvæmum, Skeifa frá Kirkjubæ (IS1952286111) nr. 2799 í ættbók. Skeifa var mæt hryssa og rómuð hvoru tveggja sem einstaklingur og með afkvæmum, mikill skeiðgammur og stóð á mótinu 18 vetra gömul önnur í skeiðkappreiðunum. Ég hygg að það afrek verði seint leikið eftir. Flugubikarinn, efsta sæti í eldri flokki hryssna, hlaut Litla-Stjarna nr. 3297 frá Hvítárholti (IS1963288261), dóttir Neista, prýðisgæðingur en markaði ekki nokkur spor í ræktun. Í yngri flokki hryssna var efst Bára frá Kröggólfsstöðum nr. 3544 (IS1965287107), afdrif hennar sem ræktunarhryssu eru áþekk Litlu-Stjörnu.
Niðurlagsorð
Stundum er talað um landsmótið 1970 sem mótið þar sem hestamennskan fór í lágmark sitt. Þessu er ekki auðvelt að andmæla því vissulega voru merkisberar hestamennskunnar eftir að þjóðin fluttist að mestu í borg og bæi og dráttarvélar og landbúnaðarjeppar að auki búnir að leysa þarfasta þjóðin frá störfum, komnir af fótum fram eða horfnir úr heimi hér og hinir er enn stóðu keikir ærið fáir en seigir voru þeir, það sannar reynslan. Þetta var þróun sem Ásgeir frá Gottorp varaði vissulega mjög við í kveri sínu, Samskipti manns og hests. Um leið var draumsýn hans, um nýtt og glæst skeið í sögu íslenska hestsins, yst við sjónarrönd. Á árinu 1970 var fyrsta Evrópumótið haldið, þá var Félag tamningamanna (FT) stofnað o.s.frv. Verður sú saga rakin nánar í næstu greinum.
Þannig er það, rétt eins og hvort glasið sé hálftómt eða hálffullt hvort við lítum á landsmótið 1970 sem mótið þar sem gengi íslenska hestsins á seinni tímum fór lægst eða þá mótið þar sem framfarasóknin hófst.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.