Landsfundar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs
Nú um helgina fer fram sjötti landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Fundurinn verður sá og langfjölmennasti til þessa, enda hefur mikil fjölgun orðið í flokknum undanfarin misseri og eru félagar orðnir yfir 5000 talsins. Fulltrúarnir koma frá alls 32 svæðisfélögum víðs vegar um landið og meira að segja utan landsteinanna en nýjasta svæðisfélagið í Kaupmannahöfn og suður-Svíþjóð sendir fulltrúa.
Á fundinum verða lagðar línur fyrir komandi kosningar og helstu baráttumálin rædd. Mikil virkni hefur verið í flokknum undanfarið og mun landsfundurinn einkennast af því. Fyrir fundinn verða meðal annars lagðar fram ítarlegar tillögur að stefnu flokksins í helbrigðismálum og sjávarútvegsmálum. En báðar tillögurnar eru afrakstur gróskumikils hópastarfs síðustu mánuði og ár. Einnig verða ályktanir bornar upp til samþykktar og skerpt á áherslumálum, auk þess að kosið verður í embætti og stjórn flokksins.
Stór og kröftugur hópur fólks tekur þátt í starfi fundarins en hann er opinn öllum flokksfélögum. Fundurinn hefst á morgun, föstudag, klukkan 15:00 og vænta má að ræða formannsins, Steingríms J. Sigfússonar hefjist um 17:45. Eftir að fundi lýkur á sunndaginn verður boðað til blaðamannafundar með efstu frambjóðendum. Áætlað er að hann hefjist klukkan 17:00.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.