Landbúnaður, veiði, Vesturland og Hólar
Miðvikudaginn 20. maí kl. 15 munu útskriftarnemar úr BA námi í ferðamálafræði kynna lokaverkefni sín við Háskólann á Hólum. Kynningin fer fram í kennslustofu ferðamáladeildar í skólahúsinu á Hólum og er opin almenningi.
Nemendurnir sem kynna og verkefnin þeirra eru eftirfarandi:
Claudia Lobindzus:
Heim að Hólum: Hólar sem áfangastaður ferðamanna.
Claudia lagði könnun fyrir ferðafólk á Hólum sumarið 2008 til að kanna hvert væri helsta aðdráttarafl svæðisins, hvernig fólki líkaði heimsóknin og fá nánari upplýsingar um bakgrunn gestanna.
Guðmundur Ögmundsson:
Ímynd Vesturlands: Hugur heimamanna og framsetning í kynningarefni.
Markaðssetning og ímynd áfangastaða, sem heimamenn eru sáttir við er mikilvægur liður í uppbyggingu ferðaþjónustu. Guðmundur beitti rýnihópavinnu til að draga fram hugmyndir heimamanna um ímynd Vesturlands og bar niðurstöðurnar saman við greiningu á kynningarefni um svæðið.
Hulda Hildibrandsdóttir:
Aukið aðgengi ferðamanna að staðbundnum landbúnaðarafurðum á Snæfellsnesi.
Hulda tók viðtöl við fólk sem tengist landbúnaði og ferðaþjónustu á Snæfellsnesi um hvort ferðafólk er fýsilegur markhópur fyrir afurðir landbúnaðar á svæðinu og þá hvernig mætti auka aðgengi þess að staðbundnum landbúnaðarvörum.
Kristján Benediktsson:
Silungsveiði í Skagafirði.
Í kjölfar umræðu um aukna áherslu á markaðssetningu silungsveiði í veiðiferðaþjónustu valdi Kristján að kanna nánar hug veiðiréttarhafa til þeirrar uppbyggingar sem hún kallar á. Verkefni hans byggir á viðtölum við veiðiréttarhafa í Skagafirði.
Rósa Vésteinsdóttir:
Sveitasæla landbúnaðarsýning og bændahátíð.
Rósa kannaði hug hagsmunaaðila til landbúnaðarsýninga með viðtölum. Landbúnaðarsýningin Sveitasæla var tekin til sérstakrar athugunar. Í verkefninu er fjallað um tilgang sýninganna og mögulegt mikilvægi þeirra í mótun ímyndar nútíma landbúnaðar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.