Fjöldi fólks hefur atvinnu af landbúnaði með beinum eða óbeinum hætti og margir byggðakjarnar eiga mikið undir þessari atvinnugrein. Landbúnaður er víða meginundirstaða annarrar atvinnustarfsemi. Byggðalög eins og Hvammstangi, Sauðárkrókur, Blönduós, Búðardalur, Borgarnes, Hólmavík o.fl. eru í dag að þjónusta hann með einum eða öðrum hætti auk þess sem vinnsla á landbúnaðarafurðum fer fram á mörgum þessara staða.
Stuðningur við íslenskan landbúnað hefur dregist saman á undanförnum árum auk þess sem framleiðsluumhverfið hefur tekið nokkrum breytingum. Þegar ákvarðanir um breytingar á rekstrarumhverfi landbúnaðarins eru teknar þá er nauðsynlegt að hafa skilning á umhverfi hans og hlutverki. Framleiðsluferli margra landbúnaðarafurða er auk þess langt og þessi atvinnugrein er því mjög viðkvæm fyrir hröðum breytingum.
Menntun og nýting sóknarfæra
Stjórnvöld verða að vera meðvituð um stöðu landbúnaðar og viðurkenna mikilvægi hans. Landbúnaðartengdar stofnanir þurfa að vera vakandi fyrir nýjum möguleikum og hafa öfluga framtíðarsýn. Þarna gegna landbúnaðarskólarnir, Háskólinn á Hólum og Landbúnaðarháskóli Íslands, lykilhlutverki en styðja þarf þessa skóla enn frekar til nýsköpunar og frumkvöðlastarfs á sem flestum sviðum. Það er mikilvægt að standa vörð um þessar stofnanir og ana ekki í stórar breytingar á rekstri þeirra án samráðs við starfsfólk, nemendur, bændur og aðra er málið varða.
Landbúnaður á bjarta framtíð en stjórnvöld verða ávallt að miða stefnumótun sína að því að byggja upp rekstrarumhverfi til framtíðar. Framtíðarsýnin verður að vera skýr og hafa það að leiðarljósi að landbúnaður verði áfram sjálfbær, styrki hinar dreifðu byggðir, standi undir því að greiða eðlileg laun og tryggi matvælaöryggi á ásættanlegum kjörum. Það er mikilvægt að ytri þættir í framleiðsluumhverfinu séu tryggðir til frambúðar og að stjórnvöld sýni í verki skilning á mikilvægi landbúnaðarins. Landbúnaðinum er einnig mikilvægt að aðild að Evrópusambandinu sé ekki á dagskrá en slík aðild myndi skaða íslenskan landbúnað og hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir marga byggðakjarna sem njóta góðs af landbúnaði með óbeinum hætti.
Ásmundur Einar Daðason
Greinarhöfundur gefur kost á sér í 2.-4. sæti í forvali Vinstri Grænna í Norðvesturkjördæmi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.