Kvennamót GSS fór fram í blíðskaparveðri á laugardaginn

Aldís Hilmarsdóttir fulltrúi GSS en hún varð í 2. sæti á mótinu. MYND: GSS
Aldís Hilmarsdóttir fulltrúi GSS en hún varð í 2. sæti á mótinu. MYND: GSS

Kvennamót GSS fór fram í bongóblíðu á Hlíðarendavelli laugardaginn 30. júní og var þetta í 21. skiptið sem mótið var haldið. Völlurinn skartaði sínu fegursta, blómum skreyttur og snyrtilegur í alla staði. 51 kona, frá níu klúbbum, mættu til leiks og heppnaðist mótið vel. Sigurvegari í ár var Dagný Finnsdóttir frá Golfklúbbi Fjallabyggðar (42 punktar), í öðru sæti var Aldís Hilmarsdóttir frá GSS (41 punktur) og í þriðja sæti var Hulda Guðveig Magnúsdóttir frá Golfklúbbi Siglufjarðar (41 punktur).  

Konur í klúbbnum hjálpast að við undirbúning og utanumhald mótsins en mótið er styrkt af fjölda fyrirtækja í Skagafirði og víðar. Að vanda svignaði verðlaunaborðið undan glæsilegum verðlaunum og er styrktaraðilum færðar hjartans þakkir fyrir stuðninginn. Þá fá þeir félagar Andri Þór og Hjalti Árna sérstakar þakkir fyrir að standa vaktina og ræsa allar skvísurnar út og ekki má gleyma Karen sem passaði að allar gætu fengið nóg að borða og drekka. 

Í gær byrjaði svo Meistaramót GSS en það voru ungu krakkanir í klúbbnum sem störtuðu mótinu í gærmorgun þegar farinn var níu holu hringur. Þau spila svo aftur níu holur í dag. Meistaramót fullorðinna hefst svo á morgun, miðvikudaginn 3. júlí, og keppt verður í sjö flokkum að þessu sinni. 

Meistaraflokkur KK - spilað verður 4*18 holur
Meistaraflokkur KVK - spilað verður 4*18 holur
1. flokkur KK - spilað verður 4*18 holur
1. flokkur KVK  - spilað verður 4*18 holur
2. flokkur KK - spilað verður 4*18 holur
Öldungaflokkur - spilað verður 3*9 holur
og svo Háforgjafaflokkur - spilað verður 3*9 holur, punktakeppni með forgjöf

 

Feykir mun að sjálfsögðu segja frá úrslitunum í næstu viku. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir