Kvennaliði Tindastóls spáð fimmta sæti
Nú í hádeginu var birt spá formanna, þjálfara og fyrirliða liðanna í 1. deild kvenna í körfubolta. Þar er liði Tindastóls spáð fimmta sætinu en alls eru það átta lið sem taka þátt í 1. deildinni. Í Subway-deild kvenna var liði Keflavíkur spáð sigri í deildinni af báðum aðilum; sams konar hópi og spáði í 1. deildina og síðan fjölmiðlamenn.
Lið Tindastóls kemur töluvert breytt til leiks í vetur, fjórir nýir ferskir íslenskir leikmenn hafa bæst í hópinn og munu því klæðast þeim rústrauða. Þá er Emese Vida mætt til leiks að nýju og reikna má með einum erlendum leikmanni til viðbótar.
Í spánni fyrir 1. deildina þá er liði Ármanns spáð efsta sæti, sunnanstúlkum í Hamar/Þór öðru sæti og KR því þriðja.
Feykir leitaði eftir viðbrögðum við spánni hjá Helga Margeirs, þjálfara Stólastúlkna. „Viðbrögðin eru bara þau að það er auðvelt að skilja þessa spá. Liðinu gekk ekki vel í fyrra og núna erum við að púsla saman nýju liði með nýjum þjálfara þannig að óvissuþátturinn er ríkjandi í spánni fyrir okkar lið. Önnur lið kannski með færri nýjar breytur og þannig þekktari stærðir. Við höfum metnað til að gera betur en þessi spá segir til um, það er allavega víst,“ segir Helgi.
Eitthvað hökt er á mótayfirliti á heimasíðu KKÍ en Feyki grunar að fyrsti deildarleikur Stólastúlkna sé gegn Aþenu 7. október og þá væntanlega fyrir sunnan. Þetta kemur vonandi allt í ljós þegar líður á veturinn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.