Kvenfélag Hólahrepps gefur Háskólanum á Hólum hjartastuðtæki

Kvenfélagskonur færa Skúla rektor hjartastuðtækið góða.

Meðal markmiða Kvenfélags Hólahrepps er að láta gott af sér leiða og á
hverju ári hefur félagið gefið gjafir sem koma sér vel fyrir
samfélagið eða ákveðna einstaklinga þess, sem þurfa á stuðningi að
halda. Að þessu sinni voru gjafapeningar ársins 2008 og 2009 settir í
eina veglega gjöf til Háskólans á Hólum, hjartastuðtæki, sem er afar
mikilvægt fyrstu-hjálpar-tæki ef fólk lendir í hjartastoppi.

Já, gjöfin er vegleg því hjartastuðtæki kostar um 270.000 krónur.
Kvenfélagið býður einnig upp á námskeið í notkun tækisins og fékk Karl
Lúðvíksson einn okkar fremsta skyndihjálparmann til þess að leiðbeina
þátttakendum. Félagið mun líka sjá um allan kostnað við tækið í
framtíðinni. Er það reyndar einlæg von Kvenfélagskvenna að ekki komi
til þess að nota þurfi tækið!

Á Hólum er oft margt um manninn. Hólar er fjölsóttur ferðamannastaður
og einnig er þar stöðugt vaxandi starfsemi háskólans. Rúmlega 100
manns eiga nú lögheimili á Hólum og svo býr þar fjöldi manns um lengri
eða skemmri tíma og ber þá fyrst að nefna nemendur, sumarstarfsfólk,
fornleifafræðinga og ferðamenn. Í margmenni er gott að vita af
hjartastuðtæki á vísum stað.

María Gréta Ólafsdóttir nýkjörinn formaður Kvenfélags Hólahrepps sést
hér afhenda Skúla Skúlasyni rektor Háskólans á Hólum tækið og að baki
þeim standa nokkrar kvenfélagskonur. Þær eru frá vinstri: Sólrún
Harðardóttir, Sigríður Björnsdóttir, Sigurbjörg B. Ólafsdóttir, Aldís
Axelsdóttir, Guðrún Þóra Gunnarsdóttir nýhættur formaður og Kristina
Tryselius.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir