Kveðin ljóð kvenna
Á föstudaginn kemur, 16. október kl. 20:00 verður haldin dagskrá í sal Framsóknarhússins á Sauðárkróki þar sem akureyskir kvæðamenn kveða, undir rímnalögum, vísur og ljóð eftir íslenskar konur. Dagskráin er vegum vegum hins nýstofnaða kvæðamannafélags Gnáar í Skagafirði. Aðgangseyrir er 1500 krónur og ekki er hægt að greiða með korti, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.
Helgina 31. október – 1. nóvember stendur félagið svo fyrir átta klukkustunda kvæðamannanámskeiði í Kakalaskála. Kennari á námskeiðinu er Ragnheiður Ólafsdóttir doktor í þjóðlagafræðum. Þar verður rætt stuttlega um sögu kvæðamennskunnar og rímnahefðarinnar. Gerðar verða bragfræðiæfingar, en aðaláherslan verður þó á það hvernig hver og einn getur orðið góður eða betri kvæðamaður. Gengið er út frá því að flestir þátttakendur séu byrjendur í kvæðamennsku, eða hafi stundað hana án þess að kveða fyrir áheyrendur að ráði.
Hlustun og greining á raddbeitingu, efnisval og samsetning dagskrár auk ýmissa atriða sem varða það að kveða opinberlega verða rædd og æfð. Þátttakendum verður leiðbeint í hópum og í einrúmi eftir því sem óskað er eftir og aðstæður leyfa.
Að námskeiðinu loknu ættu þátttakendur að vera færir um að velja og setja saman stutta dagskrá við sitt hæfi og við hæfi þeirra áheyrenda sem þeir vilja kveða fyrir, auk þess að vera færir um að halda áfram sjálfsnámi í kvæðamennsku. Verð á námskeiðið er 8000 krónur og skráning er hjá Hilmu fyrir 25. október í síma 865 3614 eða hilma@matis.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.