Krían reyndist ekki til vandræða á Sauðárkróksvelli
Fjórtánda umferðin af átján í 4. deildinni hófst á Króknum í gær þegar Tindastólsmenn tóku á móti þunnskipuðu liði Kríu af Seltjarnarnesi. Gestirnir voru í sjötta sæti deildarinnar en lið heimamanna í öðru sæti. Þegar upp var staðið unnu Stólarnir stórsigur, 5-0, og aðeins dómarinn skyggði á gleðina með því að vísa hinum magnaða Domi af velli rétt fyrir leikslok.
Það var einmitt Juan Carlos Dominguez Requena (Domi) sem kom heimamönnum á bragðið með marki eftir stundarfjórðungsleik. Addi Ólafs gerði sjötta mark sitt í deildinni í sumar á 23. mínútu og á 37. mínútu versnaði enn staða gestanna þegar Einar Örn Sigurðsson fékk að líta sitt annað gula spjald. Kría því manni færri og ekki varð það til að kæta Kríumenn þegar Daði Jóhannsson gerði sjálfsmark á 42. mínútu. Staðan 3-0 í hálfleik.
Domi gerði sitt annað mark á 65. mínútu og á 77. mínútu gerði Francisco Javier Gomez Serrano fimmta og síðasta mark leiksins. Það var síðan á 94. mínútu sem dómari leiksins rak Domi út af. Taldi hann hafa tekið niður sóknarmann gestanna sem var á leið í gegn og þar sem Domi var aftasti maður í vörn heimamanna væri um rautt að ræða. Samkvæmt upplýsingum Feykis sést greinilega á myndbandi að Domi átti þessa fína tæklingu, sparkaði beint í boltann sem fór út fyrir hliðarlínu í innkast. Óhætt að segja að heimamenn hafi verið hundfúlir með þennan ranga dóm, enda Domi búinn að spila feiknavel fyrir Stólarna upp á síðkastið.
Lið Tindastóls hefur verið mjög sannfærandi í síðustu leikjum og hefur í raun aðeins tapað einum leik í sumar. Næsti leikur verður hér heima eftir viku gegn liðinu sem var á toppi deildarinnar fyrir þennan leik, Ými úr Kópavogi. Stólarnir eru nú með 31 stig eftir 14 leiki en Ýmir er með 29 stig og Árborg 25, bæði eftir 13 leiki. Það stefnir því í hörku toppbaráttu í 4. deildinni en efstu liðin þrjú eiga öll eftir að mætast í innbyrðisviðureignum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.