Krefjandi golfveður á öllum vígstöðum
Um sl. helgi var nóg um að vera hjá unga fólkinu í Golfklúbbi Skagafjarðar. Á Króknum fór fram FISK mótið – unglingamótaröð fyrir 15-18 ára og á Reykjavíkursvæðinu var Íslandsmót golfklúbba fyrir 12 ára og yngri. Veðurspáin fyrir helgina var ekki eitthvað til að hrópa húrra fyrir og setti strik í reikninginn á báðum mótum en þrátt fyrir krefjandi aðstæður kláruðu allir sitt og voru sér og félaginu til sóma.
Á Fisk mótinu á Króknum voru aðstæður vægast sagt slæmar og var spilað í sunnan hvassviðri alla helgina en hætta þurfti keppni á föstudeginum svo slæmt var ástandið þá. GSS átti tvo þátttakendur á þessu móti en það voru þær Dagbjört Sísí Einarsdóttir og Una Karen Guðmundsdóttir. Í hópnum 15-16 ára stúlkna endaði Dagbjört Sísi í 6. sæti með 266 högg og í hópnum 17-18 ára stúlkna endaði Una Karen í 5. sæti með 270 högg. Gaman er svo að segja frá því að nýtt vallarmet var sett á Hlíðarendavelli á gulum teigum en það gerði Arnar Daði Svavarsson frá GKG en hann lék á 69 höggum (-3) og felldi þar með met sem Hákon Ingi Rafnsson setti þann 17. júlí í sumar er hann lék á 70 höggum (-2). Það er því komin ný áskorun á golffélaga GSS að ná aftur vallarmetinu.
Á Íslandsmóti golfklúbba fyrir kylfinga 12 ára og yngri voru fimmtán ungir og efnilegir krakkar að taka þátt fyrir hönd GSS. Þau skipuðu þrjú lið í mismunandi styrkleikadeildum, tvær drengjasveitir og ein stúlknasveit. Þar var keppt á þremur völlum, á Bakkakoti hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar á föstudeginum og Sveinskoti hjá Golfklúbbnum Keili í Hafnarfirðinum á sunnudeginum. Á laugardeginum áttu krakkarnir að spila í Mýrinni hjá Golfklúbbi Kópavogs- og Garðabæjar en sökum veðurs þurfti að færa mótið inn og var því spilað í golfhermum á GKG svæðinu þar sem var 20 stiga hiti og gott veður. Það eitt og sér voru ekki góð tíðindi fyrir vönu kylfingana okkar því þeir eru ekki vanir að spila í golfhermi á meðan sveitirnar frá Reykjavíkursvæðinu æfa nánast allt árið í hermi. Það reyndist sumum mjög erfitt að átta sig á aðstæðum en allir stóðu sig mjög vel og koma reynslunni ríkari heim en þeir hefðu eflaust valið að spila úti þrátt fyrir veðrið ef þeir hefðu fengið að ráða því sjálfir.
Hvíta sveitin endaði í 6. sæti af þeim sex liðum sem voru í efstu deildinni. Í öllum leikjunum munaði sára litlu á þeim og liðunum sem þeir spiluðu við og má segja að heppnin hafi ekki verið með þeim á þessu móti því allar viðureignirnar enduðu annaðhvort með jafntefli eða þá að þeir rétt töpuðu. Í Hvítu sveitinni voru þeir Brynjar, Gunnari, Kalli, Ólafur, Sigurbjörn og Víkingur.
Bláa sveitin spilaði svo í grænu deildinni og stóðu þær sig frábærlega, spiluðu eingöngu við stráka allt mótið. Viðureignirnar voru flestar mjög jafnar og enduðu þær í fjórða sæti. Í Bláu sveitinni voru þær Bergdís Birna, Fanndís Vala, Nína Júlía og Nína Morgan en þess má geta að bæði Bergdís og Fanndís eru nýbyrjaðar að stunda golf.
Það var svo Gula sveitin sem náði að landa medalíu í gráu deildinni en þeir gerðu sér lítið fyrir og enduðu í 2. sæti eftir svakalega flottar viðureignir með flottum golftöktum. Í gulu sveitinni voru þeir Björn Henrý, Daníel Smári, Davíð Örn, Haukur og Orri Freyr en þeir eru flest allir nýbyrjaðir að stunda golf og mega vera hrikalega sáttir með frammistöðu sína á þessu móti.
Fyrir hönd foreldra viljum við þakka þjálfurum sumarsins þeim Atla Frey Rafnssyni, Tómasi Bjarka Guðmundssyni, Dagbjörtu Sísí Einarsdóttur og Gígju Rós Bjarnadóttur fyrir sumarið og helgina því þetta hefði ekki verið gerlegt án þeirra.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.