Kormákur Hvöt tryggði sér sæti í 2. deild
Það fór eins og allt benti til. Lið Kormáks Hvatar gerði sér lítið fyrir og tryggði sér sæti í 2. deild að ári sem er í fyrsta sinn sem sameinað lið félaganna spilar í þeirri deild. Í gær fengu Húnvetningar lið Augnabliks úr Kópavogi í heimsókn og þurftu stig til að tryggja farseðilinn upp um deild. Heimamenn voru komnir með tveggja marka forystu eftir 17 mínútur og unnu á endanum magnaðan 3-0 sigur og tryggðu sér þar með annað sætið í 3. deild. Til hamingju Kormákur Hvöt!
Leikurinn var aðeins níu mínútna gamall þegar Viktor Ingi Jónsson smellti vinsti fæti í boltann utan teigs og kom sínum mönnum í 1-0. Átta mínútum síðar var það Kristinn Bjarni Andrason sem bætti um betur og staðan 2-0 í hálfleik. Eftir 59 mínútna leik hljóp smá spenna í leikinn þegar Goran Potkozarac fékk að líta sitt annað gula spjald og heimamenn því orðnir einum færri. Gestunum tókst ekki að nýta sér það, enda við ofurefli að etja í marki Kormáks Hvatar þar sem fyrirliðinn stóð vaktina þriðja leikinn í röð. Ismael Moussa tryggði sér síðan markakóngstitil 3. deildar með því að gera þriðja mark heimamanna á 90. mínútu og gulltryggja stigin þrjú. Kappinn gerði 18 mörk í sumar.
Hreint út sagt frábær árangur hjá liði Húnvetninga sem var spáð hálfgerðum hrakförum fyrir tímabilið. Eftir nokkuð erfiða byrjun á mótinu og þjálfaraskipti hafa liðsmenn Kormáks Hvatar snúið bökum saman og horft einbeittir á silfurlænuna. Þeir áttu nokkur feilspor undir lok mótsins en náðu alltaf taktinum á ný og nú eru spennandi tímar framundan.
Það var lið Reynis úr Sandgerði sem endaði efst í deildinni með 47 stig en Sandgerðingar töpuðu þó í gær á heimavelli sínum gegn liði Árbæjar sem var eina liðið sem gat skákað liði Kormáks Hvatar hefðu Húnvetningar tapað í dag. Lið Kormáks Hvatar nældi í 45 stig í sumar en Árbæingar 42. Liðin sem féllu í 4. deild voru KFS frá Vestmannaeyjum og Ýmir úr Kópavogi.
Feykir sendir hamingjuóskir á liðs- og stuðningsmenn Kormáks Hvatar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.