Kormákur Hvöt leikur á Sjávarborgarvellinum í sumar!
Stjórn meistaraflokks Kormáks Hvatar og hinn rómaði veitingastaður Sjávarborg hafa með bros á vör skrifað undir samning þess efnis að Hvammstangavöllur í Kirkjuhvammi beri nafn Sjávarborgar leiktíðina 2024. Mun þetta vera í fyrsta sinn sem knattspyrnuvöllurinn ber nafn styrktaraðila.
Sjávarborg opnaði dyr sínar fyrir gestum árið 2015 og hefur síðan séð heimafólki og ferðalöngum fyrir hágæða mat með áherslu á íslenskt og ferskt hráefni - rétt eins og knattspyrnulið Kormáks Hvatar hefur alltaf lagt áherslu á að vera vettvangur fyrir knattspyrnumenn úr heimabyggð með ferskum erlendum íblöndunarefnum.
Í sumar munu fjórir meistaraflokksleikir fara fram á Sjávarborgarvellinum, auk leikja í yngri flokkum. Við minnum að sjálfsögðu alla sem leið sína leggja á þá leiki að koma við á Sjávarborg og gæða sér á gómsætum réttum og jafn gómsætu útsýni yfir Húnaflóann.
Meistaraflokksráð fagnar þessu samstarfi gríðarlega og sér í lagi þeirri staðreynd að enn einn máttarstólpinn í húnvetnsku menningar- og atvinnulífi sér hag sinn í því að styðja við bakið á liðinu okkar allra.
Áfram Sjávarborg og áfram Kormákur Hvöt!
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.