KÓR MENNTASKÓLANS VIÐ HAMRAHLÍÐ Í TÓNLEIKAFERÐ Í SKAGAFIRÐI
Kór Menntaskólans við Hamrahlíð verður á tónleikaferðalagi í Skagafirði dagana 28. - 30. mars. Kórinn heldur tónleika í félagsheimilinu Höfðaborg á Hofsósi laugardaginn 28. mars kl.16. Sunnudaginn 29. mars syngur kórinn við messu í Hóladómkirkju og sama dag verða tónleikar í Miklabæjarkirkju kl.17.
Mánudaginn 30. mars heldur kórinn ferna skólatónleika, í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki, í Árskóla á Sauðárkróki, í Varmahlíðarskóla og loks, á heimleið, tónleika í Skólabúðunum Reykjum í Hrútafirði.
Á efnisskrá kórsins í þessari ferð til Skagafjarðar og Hrútafjarðar eru íslensk og erlend tónverk m.a. eftir J.S.Bach, Béla Bartok, Thomas Jennefelt, Pál Ísólfsson, Jón Ásgeirsson, Atla Heimi Sveinsson og Þorkel Sigurbjörnsson auk þjóðlaga frá ýmsum löndum. Margir hljóðfæraleikarar eru meðal kórfélaga.
Á þessari vorönn er Kór Menntaskólans við Hamrahlíð skipaður 90 nemendum á aldrinum 16 - 20 ára. Stjórnandi kórsins er Þorgerður Ingólfsdóttir. Kórinn hefur áður heimsótt Sauðárkrók (1978, 1994, 1996 og 2006), Hofsós (1996) og Hóla (1996) en þetta er fyrsta heimsókn kórsins í Miklabæ, Varmahlíð og að Reykjum í Hrútafirði. Fararstjóri í ferðinni er rektor Menntaskólans við Hamrahlíð, Lárus H. Bjarnason.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.