Konur í uppbygginguna
Íbúar Norðvesturkjördæmis eru ekki með meltingatruflanir eftir neysluæði undanfarinna ára. Við höfum flest gert okkur grein fyrir að sókn til breytinga er nauðsynleg og tímabær.
Í nýrri rannsókn, um búferlaflutninga kvenna af landsbyggðinni, kemur fram að fyrsta ástæða flutnings hjá 65% þátttakenda var nám. Önnur helsta ástæðan var vinnumarkaðurinn. Þarf nokkuð að segja meira til að skýra hvar vandi okkar liggur? Ef við ætlum að snúa við þróun undanfarinna ára, sem felur í sér hækkaðan meðalaldur og stöðuga fækkun fólks á aldrinum 20-40 ára, fólksins sem eignast börn, þarf samsetning atvinnulífsins að breytast og tækifærum til náms á heimaslóð þarf að fjölga.
Samfylkingin býður fram tvær öflugar konur sem eru frábærir fulltrúar fyrir einmitt þau svið þar sem við þurfum mest að sækja fram í Norðvesturkjördæmi. Ólína Þorvarðardóttir, fyrrverandi háskólakennari og skólastjórnandi , hefur ríkan skilning og reynslu af menntamálum og er þekkt m.a. fyrir dugnað sinn og baráttu fyrir háskólastarfsemi á Vestfjörðum. Hún hefur kynnt sér starfsemi Háskólans á Hólum og annarra háskóla í kjördæminu. Það er gott að eiga stuðning hennar vísan á næsta kjördtímabili, ekki veitir af.
Arna Lára Jónsdóttir er í baráttusæti Samfylkingarinnar og á mjög góða möguleika á að ná sæti á Alþingi. Hún er ung kona sem fyrir nokkrum árum sneri heim frá námi, einmitt það sem við óskum að ungt fólk eigi kost á að gera í framtíðinni. Verkefni hennar undanfarin ár hafa snúið að uppbyggingu atvinnulífs, þar með talið nýsköpun.
Ég hvet kjósendur í Norðvesturkjördæmi til að tryggja setu þessara kröftugu fulltrúa okkar á Alþingi næsta kjörtímabil , ásamt okkar trausta forystumanni Guðbjarti Hannessyni. Við þurfum öflugt fólk í vörn og sókn.
Setjum X við Samfylkinguna.
Baráttukveðjur
Anna Kristín Gunnarsdóttir, Sauðárkróki, skipar 5. sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.