Kobbatvennur komu Kormáki/Hvöt í bobba
Kormákur/Hvöt heimsóttir Húsavík í dag þar sem lið Völsungs beið þeirra en Þingeyingar sátu í öðru sæti 2. deildar fyrir leikinn. Húnvetningar eru hins vegar í fallbaráttu en ætluðu sér stig. Eftir ágætan en markalausan fyrri hálfleik fór sú von út um gluggann og í hvalskjaft á Skjálfanda. Þegar upp var staðið höfðu heimamenn gert fjögur mörk en gestirnir ekkert.
Leikurinn var tíðindalítill framan af leik nema hvað hinn dagfarsprúði aðstoðarþjálfari gestanna, Ingvar Magnússon, fékk að líta rauða spjaldið á 21. mínútu. Staðan 0-0 í hálfleik en eftir fimm mínútna leik í síðari hálfleik skoraði Jakob Sigurðsson fyrir Völsung og hann bætti öðru marki við stundarfjórðungi síðar en gestunum þótti hann ískyggilega rangstæður. Markið stóð og þá tók hinn Kobbi Húsvíkinga, Jakob Róbertsson, til við að skora. Fyrra mark hans kom á 76. mínútu og hann setti seinna markið þremur mínútum síðar.
Meiðsli og bönn herja á Húnvetninga og er ekki að hjálpa til á lokametrum tímabilsins. Þá er þeirra öflugasti maður, markvörðurinn Uros Djuric, fjarri góðu gamni. Lið Kormáks/Hvatar, sem er með 19 stig, á tvo leiki eftir og báðir eru þeir gegn liðum sem eru að berjast í efri hluta deildarinnar. Lið Reynis Sandgerði er fallið og fjögur lið eru í hættu að falla með þeim. KF er stigi neðar en Húnvetningar og þeir fengu skell í dag í Vogunum. Liðin eru bæði með 19 mörk í mínus í markatölu og útlir fyrir mikla spennu í síðustu umferðunum.
Koma svo Kormákur/Hvöt!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.