Kjósum já – fyrir framtíðina
Í lok apríl 2021 hófust óformlegar viðræður milli sveitarfélaganna Skagafjarðar og Akrahrepps um sameiningu sveitarfélaganna tveggja. Sveitarfélögin hafa alla tíð átt í umfangsmiklu samstarfi um ýmsa þjónustu og því þóttu viðræðurnar eðlilegt framhald á nánu og vaxandi samstarfi sveitarfélaganna undanfarin ár.
Í kjölfarið var ákveðið að hefja formlegar viðræður þar sem hvort sveitarfélag tilnefndi fimm fulltrúa í samstarfsnefnd. Vinna fulltrúanna hefur einkum falist í faglegu mati á kostum og göllum og þeim tækifærum sem kunna að felast í sameiningu sveitarfélaganna tveggja. Kortlögð var sú uppbygging sem ráðast þarf í til að styrkja samkeppnishæfni og búsetuskilyrði samfélagsins alls í Skagafirði.
Undirrituð voru kosin til að vinna að verkefninu fyrir hönd Sveitarfélagsins Skagafjarðar og sitja í samstarfsnefndinni sem hefur farið yfir alla málaflokka sem snerta stjórnsýslu sveitarfélaganna sem og áhersluatriði gagnvart stjórnvöldum. Þá hafa íbúafundir verið haldnir sem jafnframt var streymt á Facebook-síðum sveitarfélaganna beggja þar sem kynnt var vinna og niðurstöður eftir yfirferð málaflokkanna.
Sameiningu sveitarfélaganna tveggja fylgir um 730 milljón króna fjárframlag frá Jöfnunarsjóði sem sveitarfélögin eru sammála um að nýta til að hraða uppbyggingu skólamannvirkja í Varmahlíð eins og kostur er. Þannig væri hratt og örugglega hægt að bæta verulega aðstæður til náms og vinnu, og styrkja þann grundvöll sem skólarnir í Varmahlíð eru fyrir framhéraðið. Þetta framlag, til viðbótar góðri rekstrarstöðu, þýðir að geta sameinaðs sveitarfélags til að viðhalda eignum og sinna nýframkvæmdum annars staðar í héraðinu verður um leið meiri.
Hafa ber í huga að nýtt og sameinað sveitarfélag verður fjölmennasta dreifbýlissveitarfélag landsins með um þriðjung íbúa í dreifbýli og tvo þriðju hluta íbúa búsetta í fimm þéttbýliskjörnum vítt og breytt um héraðið. Sameinað sveitarfélag allra Skagfirðinga mun hafa sterkari rödd og meiri slagkraft til að koma hagsmunum íbúa í dreifbýli sem þéttbýli og atvinnulífs í Skagafirði á framfæri við stjórnvöld.
Sameinað sveitarfélag hefur alla burði til að veita góða þjónustu og ástunda faglega og skilvirka stjórnsýslu sem kallar eftir sjónarmiðum íbúa með skipulögðum og markvissum hætti, t.d. með beinni þátttöku íbúa í ákvarðanatöku um einstök mál, með skipulögðum íbúafundum eða einhvers konar íbúa- eða hverfisráðum.
Niðurstaða okkar eftir þessa vinnu er sú að við hvetjum íbúa beggja sveitarfélaga eindregið til að kjósa með sameiningu þeirra, þannig eflum við framtíð Skagfirðinga allra.
Settur hefur verið á laggirnar vefurinn Skagfirdingar.is og hvetjum við íbúa héraðsins til að kynna sér þá vinnu sem þegar hefur farið fram, leita svara við spurningum og taka þátt í að gera gott samfélag enn betra.
Gísli Sigurðsson
Ingibjörg Huld Þórðardóttir
Álfhildur Leifsdóttir
Jóhanna Ey Harðardóttir
Sigfús Ingi Sigfússon
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.