Kínverji sást í Skagafirði
Sá fáheyrði atburður átti sér stað á dögunum að Kínverji sást í Skagafirði. Vakti hann athygli gesta og gangandi. Mun tilgangur ferðar hans hafa verið sá að fjárfesta í Skagafirði.
Þannig keypti hann pulsu með öllu og kók í Varmahlíð, kíkti í galleríið sömuleiðis og splæsti í forláta lopapeysu með hestamunstri sem hann hyggst gefa móður sinni. Hann var þó hvergi nærri hættur, heldur fór inn á Sauðárkrók, þar sem hann heimsótti veitingastað og borðaði þar kvöldverð, ásamt því að versla reiðinnar öll ósköp af sleifum í Skagfirðingabúð og ekki nóg með það, heldur fór hann í Sauðárkróksbakarí í bítið morguninn eftir og keypti sér morgunverð.
Hefur þetta uppátæki Kínverjans vakið margar spurningar um raunverulegan tilgang hans með heimsókninni í Skagafjörð. Óttast sumir að þessi kaup hans á vörum og þjónustu séu hreint og klárt yfirskin og ætli hann sér síðar að setja hér upp risastóra stjarneðlisrannsóknarstöð og krefjast þess í framhaldinu að þak verði reist yfir fjörðinn. Aðrir hafa heyrt að hann ætli að byggja upp ferðaþjónustu í stórum stíl í Skagafirði, en banna síðan ferðamönnum að heimsækja þá staði og jafnvel hefur heyrst að hann ætli sér að banna flugum að fljúga yfir staðina.
Kínverjinn hélt úr Skagafirði í gærdag en kunnugir segja að hann hyggist heimsækja fjörðinn aftur síðar og taka móður sína með og þá verður spennandi að sjá hvort hann lætur til skarar skríða eða ekki.
Fyllsta ástæða er hins vegar til þess að láta umhverfisráðherra vita af þessu uppátæki.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.