Keppnis- og kynnisferð Molduxa til Evrópu 1994 - Annar hluti :: The Icelandic Old Star National team

Molduxar eftir sinn fyrsta sigur í Evrópuleik. Samdóma álit var að Molduxarnir hefðu aldrei verið eins sveittir og eftir þennan leik sbr. mynd af liðinu. Annað afrek var unnið í Graz, Pálmi Sighvats dæmdi sinn fyrsta leik á erlendri grund og stóð sig með prýði.
Molduxar eftir sinn fyrsta sigur í Evrópuleik. Samdóma álit var að Molduxarnir hefðu aldrei verið eins sveittir og eftir þennan leik sbr. mynd af liðinu. Annað afrek var unnið í Graz, Pálmi Sighvats dæmdi sinn fyrsta leik á erlendri grund og stóð sig með prýði.

HUGMYNDIN

Íþróttafélagið Molduxar var stofnað í nóvember 1981 með það að markmiði að iðka körfuknattleik af meiri kappi en forsjá, en það var ekki síðri tilgangur félagsmanna að hafa gaman af lífinu í góðum félagsskap. Síðan þá eða í tæp 41 ár hafa félagsmenn æft körfuknattleik allan ársins hring og sótt mót bæði hérlendis og til útlanda og skemmt sér og öðrum með alls kyns uppákomum með anda ungmennafélaganna að leiðarljósi.

Á árinu 1993 er félagið hafði starfað í 12 ár, þjálfaði meistaraflokk Tindastóls, Króatinn Petar Jelic, gamall afreksmaður í íþróttinni góðu. Jelic þessi var býsna merkilegur maður. 1966 eða 1967 var hann valinn besti bakvörður í Evrópu. Í samtali við Pálma Sighvats, kom fram að á þessum árum bauðst Jelic fyrstum Evrópskra körfuknattleiksmanna, samningur við Boston Celtics í NBA deildinni amerísku. Faðir hans sem var mikill kommúnisti af gamla skólanum, lagðist eindregið gegn því að Jelic færi vestur. Úr varð að Jelic fór hvergi og má segja að það hafi verið mikil mistök.

 

Petar Jelic, fyrrum þjálfari Tindastóls, hvatti Uxa
til að halda í keppnisferð til Evrópu.

Mál þróuðust svo að Jelic hóf æfingar með Molduxum sér til skemmtunar og heilsubótar og þar kom að því að Jelic hvatti Uxa til að halda í keppnisferð til Evrópu. Undanfarin fimm ár hafði verið haldið alþjóðlegt körfuknattleiksmót eldri leikmanna í borginni Zagreb, en höfuðborg Króatíu fagnaði einmitt 900 ára afmæli 1994. Króatar eru mikil íþróttaþjóð og löng hefð fyrir iðkun körfubolta þar í landi. Óttar Bjarkan Bjarnason bakari fékk strax mikinn áhuga á málinu og má segja að hann ásamt Pálma Sighvats þáverandi húsverði íþróttahússins, hafi kvatt mest allra til fararinnar og þeim að þakka að úr varð. Á nýársfagnaði Molduxanna í janúar1994 má segja að tekin hafi verið endanleg ákvörðun. Mótið í Zagreb átti að halda 21. -22. maí.

Hófst nú undirbúningur að ferðinni. Snemma varð ljóst að leikmenn þyrftu að leggja á sig strangar æfingar þar sem margir leikir yrðu spilaðir og gott þrek nauðsynlegt til að halda út ferðina alla. Búast mátti við dýrðlegum sigurhátíðum næstum hvert kvöld og mörg samkvæmi skyldu setin. Ekki spillti fyrir að nýlega hafði Jón Baldvin Hannibalsson þáverandi utanríkisráðherra viðurkennt fullveldi Króata fyrir hönd Íslendinga. Þegar nær dró og undirbúningur ferðarinnar tók á sig mynd, varð okkur sem betur fer ljóst að við þyrftum að hafa í farteskinu gjafir handa gestgjöfum okkar. Höfðum við með okkur íslenska fánann, ljósmyndir af Króknum og fleira í þessu skyni.

Einnig æfðum við nokkur lög svo við gætum sungið skammlaust þegar þar að kæmi. Snemma varð ljóst við skipulagningu ferðarinnar að við vildum gera meira úr ferðinni en þátttöku í Zagreb mótinu. Niðurstaðan varð 11 daga ferð. Undir lok skipulagningar varð okkur ljóst að við höfðum færst of mikið í fang. Margeir skrifaði Petar Jelic faxbréf þann 5. maí og tók skýrt fram að Uxarnir kærðu sig ekki um fleiri kappleiki eftir að þátttöku okkar á hraðmóti á eyjunni Lido í Fenyjaklasanum lyki þann 24. maí.

Einnig hættum við leik sem við höfðum skipulagt í bænum Merch í Luxemburg þann 27. maí. Þar vorum við í sambandi við Graham nokkurn Wilson. Eftir þetta lá skipulag ferðarinnar fyrir. Bættum við um betur og réðum Robert Buntic auknefndan Mr. Maccaroni, þjálfara liðsins á mótinu í Zagreb. Buntic hafði leikið tímabilið áður með Tindastóli.

Með faxbréfi 23. mars 1994 til Mr. Dragutin Drofenik secretary general staðfestum við þátttöku okkar í mótinu. Þátttökugjald fyrir hvert lið var 100 þýsk mörk sem frú Zlatica Jelic lagði út fyrir okkur. Fram kom í bréfi Uxanna að þeir myndu leika í hvítum og rauðum búningum og nöfn leikmanna voru tíunduð. Á haus bréfsins var ritað stórum stöfum THE MUD BULLS, Molduxar International Ltd., Basketball & Entertainment Division. Og myndin af Uxanum góða prýddi einnig bréfsefnið.

Lagt var í hann frá Keflavík mánudaginn 16. maí kl. 13.35 og komið heim tólf dögum síðar eða kl. 03 laugardaginn 28. maí Þeir sem ákváðu að fara voru þessir: Alfreð Guðmundsson bakvörður, Óttar Bjarkan Bjarnason miðherji, Margeir Friðriksson bakvörður, Ágúst Guðmundsson framherji, Hjörtur Sævar Hjartarson framherji, Geir Eyjólfsson framherji, Ingimundur Guðjónsson skytta og Pálmi Sighvats bakvörður og milliríkjadómari. Petar Jelic átti svo að hitta okkur í Austurríki. Ákveðið var að við myndum aka um Króatíu í lítilli rútu sem Petar útvegaði. Því var sammælst um að taka bara allra nauðsynlegasta farangur með og lagði Pálmi ríka áherslu á að ferðast „létt“.

AF STAÐ

Uxarnir tóku flugið til Hafnar kl.13.35 þann
16. maí og Evróputúrinn þar með hafinn.

Ekið var frá Sauðárkróki kl. 6.00 skv. nákvæmri ferðaáætlun. Á leiðinni til Keflavíkur gripum við milliríkjadómarann okkar upp á Suðurlandsbrautinni. Var Pálmi með þá stærstu ferðatösku sem við höfðum séð og stemmdi alveg við regluna um nauman farangur! Uxarnir tóku flugið til Hafnar kl.13.35 þann 16. maí og lentu á Kastrup kl.16 að dönskum tíma. Á vellinum tók á móti okkur Friðrik Jónsson fyrrum Molduxi og kom hann okkur heim á hótel Evropa við Colbjörnsensgade nr. 6 þar sem Uxarnir gistu sína fyrstu nótt í útlöndum.

Var hótelið eins nálægt Istedgade og Kakadu næturklúbbnum eins og kostur var. Haldið var í Tivoli um kvöldið og skemmtu menn sér þar við leik og veisluhöld sem einkenndu ferðina. Morguninn eftir fengu drengir sér göngutúr um Strikið, að Nýhöfn og víðar um borgina. Um hádegisbil var síðan haldið út á flugvöll og stigið kl. 14.30 um borð í flugvél frá SAS sem flutti okkur rakleiðis til Vínarborgar.

VÍNARBORG

Við hlutum ljómandi góðar móttökur í Vín, fengum inni á Reichshof hóteli við Muhlfeldsgasse nr. 13. Í borginni var 28 gráðu hiti, en daginn áður voru aðeins 3 gráður á Króknum. Gengu félagarnir niður Pratnersstræti allt að Stefáns dómkirkju sem mun vera ein frægasta kirkjubygging í Evrópu. Fjörugt mannlíf og fagrar byggingar vöktu athygli okkar. Leiðangursmenn gengu snemma til náða þar sem fyrsti leikur ferðarinnar var fyrirhugaður í borginni Graz daginn eftir.

Miðvikudagurinn 18. maí hófst með skoðunarferð um Vínarborg. Spænski reiðskólinn var heimsóttur og vetrarhallir Habsborgaranna. Einnig var litið inn í Stefáns kirkju og drukkið kaffi á útiveitingahúsi þar sem við virtum fyrir okkur vegfarendur af öllum gerðum og stærðum.

GRAZ AUSTURRÍKI

Kl. 14.22 var stigið um borð í járnbrautarlest á Sud Bahnhof og haldið áleiðis til Graz, 700 þúsund manna borgar suður af Vínarborg. Ferðalagið í lestinni var sérlega skemmtilegt, útsýni mikið og fallegt í austurrísku landslagi. Á brautarpallinum í Graz beið enginn annar en Petar Jelic og hrópaði upp yfir sig þegar hann kom auga á okkur: ó mæ god jú meid itt ! Svo kyssti hann alla. Hann hafði augsjáanlega haft takmarkaða trú á kunnáttu Uxa til ferðalaga í útlöndum. Í móttökunefndinni var einnig fjölskylda Petars og liðsmenn körfuknattleiksliðsins GAK frá Graz sem til stóð að keppa við síðar um daginn eða kl.19.30.

Gestgjafar okkur óku rakleiðis með okkur að gististað okkar í skóla einum. Þar fengum við fimm mínútur til að taka okkur til. Molduxar voru algerlega tilbúnir í leikinn, við höfðum ekki stundað æfingar síðustu tvær vikur fyrir brottför af ótta við meiðsli og vorum því vel hvíldir. Skemmst er frá því að segja að Molduxar unnu sinn fyrsta Evrópuleik, 50:61. Samdóma álit var að Molduxarnir hefðu aldrei verið eins sveittir og eftir þennan leik sbr. mynd af liðinu.

Annað afrek var unnið í Graz, Pálmi Sighvats dæmdi sinn fyrsta leik á erlendri grund og stóð sig með prýði. Að leik loknum buðu liðsmenn GAK Molduxum til kvöldverðar þar sem skipst var á gjöfum og spjallað um heima og geima. Minnisstæð er glannaleg ökuferð í sjúkrabíl með hálfbrjáluðum lækni og liðsmanni GAK. Meðal afreka hans var að setja hættuljósin og sírenur á fullt og ók þannig yfir gatnamót á rauðu ljósi!

Vorum við þeirri stundu fegnastir þegar við komumst heilu og höldnu inn á heimavist íþróttaskólans. Í blaðinu Kleine Zeitung sem er bæjarblað í Graz, var grein um komu Molduxanna frá Sauðárkróki. Okkur brá notalega í brún er við lásum fyrirsögn blaðsins um heimsókn the Icelandic Old Star National team þar sem fæstir okkar höfðu spilað deildarleik heima á Fróni!

Íþróttafélagið Molduxar heimsótti stríðsþjáða Króatíu árið 1994 og birtir Feykir þessa skemmtilegu ferðasögu í nokkrum áföngum en fyrsti hluti birtist í 25. tbl. Feykis 2022 og annar hlutinn í 26. tbl.
Skrifin önnuðust Ágúst Guðmundsson og Margeir Friðriksson en formálann ritaði Ágúst Ingi Ágústsson, sagnfræðingur.

Fyrri greinar:

Keppnis- og kynnisferð Molduxa til Evrópu 1994 - Fyrsti hluti :: Ísland viðurkennir sjálfstæði Króatíu og Slóveníu

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir