Kaupfélag Skagfirðinga í 120 ár
Þann 23. apríl. 2009 á sumardaginn fyrsta, fagnar Kaupfélag Skagfirðinga 120 ára afmæli sínu og býður til veislu í nýja verkstæðishúsinu að Hesteyri 4 kl 14:00 þann sama dag. Fólk hefur í gegnum tíðina haft sterkar skoðanir á Kaupfélaginu og oft tekist á í skoðunum sínum og verið ósammála.
En saga Kaupfélagsins spannar yfir lengri tíma en nokkur man og hefur Guðbrandur Þorkell Guðbrandsson, sem gengið hefur undir nafninu Keli í Kaupfélaginu til margra ára, tekið saman söguna sem er bæði fróðleg og skemmtileg og fer hér á eftir úrdráttur úr henni.
Kaupfélag Skagfirðinga 120 ára þ. 23.4. 2009
Eftir því, sem næst verður komist, hefur ekkert fyrirtæki enn náð því að vera með samfelldan, fullan rekstur svo langan tíma hér á landi sem Kaupfélag Skagfirðinga. Landsbanki Íslands var stofnaður 1886, en hann fór á hausinn í haust, eins og flestum er í fersku minni og má í raun segja að hinn einkavæddi Landsbanki hafi verið annað fyrirtæki en það, sem ríkið seldi á sínum tíma.
Kaupfélag Eyfirðinga, sem var stofnað sama ár og Landsbankinn, er ekki með neinn rekstur lengur. Kaupfélag Þingeyinga, stofnað 1882, komst í þrot fyrir nokkrum árum og er ekki með nein umsvif. Nú þarf að hafa þann fyrirvara, að opinber fyrirtækjaskrá hefur ekki neinar upplýsingar um stofnár fyrirtækja. Þar er eingöngu miðað við árið þegar núverandi kennitölukerfi var tekið upp sem upphafsár íslenskra fyrirtækja. Um þetta eru því hvergi til opinberar, áreiðanlegar upplýsingar. En hvað varðar aldur KS þarf að hafa nokkurn fyrirvara á, því í raun má halda því fram með nokkrum rökum að það hafi í raun verið stofnsett árið 1884.
Þá var nefnilega stofnað Vörupöntunarfélag Húnvetninga og Skagfirðinga að Fjalli í Sæmundarhlíð og það starfaði fram til ársins 1888. Stofndagur Vörupöntunarfélagsins telst vera 1. september árið 1884, en undirbúningsfundur var þó haldinn hálfum mánuði fyrr. Það voru sömu einstaklingar, og mynduðu hinn félagslega kjarna þess, sem ákváðu 23.4. 1889 að halda áfram þeirri starfsemi, sem þar hafði verið komið á fót, undir nafninu Kaupfélag Skagfirðinga. Þótt þarna hafi ekkert komið fram í nafninu um tengingu við Austur-Húnavatnssýslu, þá voru í upphafi bændur í Bólstaðarhlíðarhreppi og Engihlíðarhreppi þátttakendur í KS og skildi leiðir ekki fyrr en Kaupfélag Húnvetninga var stofnað. Það má ráða af samtímaheimildum, þ.m.t. fyrstu fundargerð KS, að þeir sem stofnuðu KS hafi litið svo til, að Kaupfélagið væri beint framhald af Vörupöntunarfélaginu.
Það er meira að segja freistandi að álykta, að sitthvað af eignum Vörupöntunarfélagsins hafi verið án sérstakrar umræðu látnar renna inn í KS. Hreppar vestan Blöndu, þ.e. Torfalækjarhreppur og Svínavatnshreppur, voru þó aldrei þátttakendur í KS, þótt þeir væru eignaraðilar að Vörupöntunarfélaginu, né heldur Vindhælishreppur. Svo virðist sem sagt að þarna hafi fyrst og fremst verið um að ræða skipulagsbreytingu, þ.e. að Vörupöntunarfélagið var hlutafélag, en með stofnun KS voru menn að færa sig yfir í samvinnufélagsformið, sem Eyfirðingar og Þingeyingar höfðu tekið upp að breskri fyrirmynd.
Helsti forgöngumaður að stofnun KS var Ólafur Briem, þá búsettur að Álfgeirsvöllum í Efribyggð. Ólafur hafði jafnframt verið forystumaður Vörupöntunarfélagsins, og hefur Ólafur verið einn helsti foringi Skagfirðinga, m.a. alþingismaður þeirra með meiru. Hann hefur hinsvegar ekki gefið kost á sér til að vera í forystu fyrir fyrstu stjórn þess, því það verkefni fékk sr. Zophonías Halldórsson í Viðvík. Ólafi var hinsvegar alla tíð mjög umhugað um félagið og samvinnumál almennt og varð hann m.a. eftir að hann flutti til Reykjavíkur, formaður stjórnar Sambandsins um hríð og þar með í forystusveit samvinnumanna á landsvísu. Meðan samvinnuhreyfingin var og hét voru Skagfirskir félagsmálamenn jafnan vel vakandi fyrir hagsmunum hennar og má hér minna á Gísla Magnússon í Eyhildarholti, sem með sínum beitta penna og sívökula huga var búinn til varnar fyrir hreyfinguna hvenær, sem honum þótti við þurfa. Varð hann og landskunnur að verðleikum fyrir þau skrif.
Sú eyða, sem myndaðist á viðskiptasviðinu milli starfsemi Vörupöntunarfélagsins annarsvegar og KS hinsvegar, átti sér fyrst og fremst rót í þeim miklu veðurfarslegu hörmungum, sem yfir riðu árið 1887. Sem dæmi um það má nefna að hafísþök voru fyrir Norðurlandi það lengi sumars, að það var ekki fyrr en um miðjan ágúst, sem tókst að sigla gufuskipinu Camoens inn til Sauðárkróks. Efnahagslegar tengingar milli þessara tveggja félaga hafa hinsvegar ekki verið slíkar, að menn hafi talið rétt að líta á Vörupöntunarfélagið sem beinan forvera KS, þótt sömu einstaklingar hafi að miklu leyti staðið að KS og voru í forsvari fyrir hinar einstöku deildir Vörupöntunarfélagsins. Umsvif Vörupöntunarfélagsins virðast hafa verið lítil ef nokkur árið 1888 og er nokkuð ljóst að forsvarsmenn hafa talið óviðunandi að láta þarna staðar numið hvað varðar starfrækslu verslunar á félagslegum grunni. Því hafi verið kallaður saman fundurinn á Sauðárkróki þ. 23.4. 1889, þar sem KS var stofnað og hafið það starf, sem enn stendur og er svo ríkur þáttur í þeim trausta grunni, sem byggð og mannlíf í Skagafirði byggir á.
Í starfi félagsins hafa auðvitað skiptst á skin og skúrir og á árunum 1907 til og með 1913 hefur greinilega staðið tæpt að félaginu tækist að halda lífi. Á hverjum aðalfundi þessi ár eru greidd um það atkvæði, hvort halda skuli rekstrinum áfram. Hér er ekki tími né rúm til að rekja þá sögu að öðru leyti en því, að nægilega margir, traustir og staðfastir menn voru tilbúnir til þess að taka á sig persónulegar ábyrgðir fyrir þess hönd til að lánardrottnar þess gengju ekki að því og félagsmönnum þess samkvæmt þeirri samábyrgð, sem í félagsforminu fólst á þessum tíma. Það segir sig sjálft, að ekki var um að ræða neina undirmálsmenn eða fátæklinga sem þarna stóðu í stafni, enda hefði slíkt ekki dugað til. Það verður líka ljóst, ef nöfn stofnendanna og helstu framámanna í félagsstarfinu eru skoðuð þarna fyrstu áratugina í starfi KS, að þeir sem höfðu forgöngu um stofnun félagsins og stóðu þéttast að baki þess þegar erfiðleikar steðjuðu að, voru málsmetandi einstaklingar.
Þar er átt við bændur, sem stóðu efnahagslega sterkir fyrir og ekki síður þeir héraðsbúar, sem höfðu víkkað sinn sjóndeildarhring annað hvort með skólagöngu eða sjálfsmenntun og öðlast þar með meiri félagslegan þroska en ella. Prestar í héraðinu hafa alla jafna átt þar sína fulltrúa og er nóg í því sambandi að nefna sr. Zophonías Halldórsson, fyrsta formann félagsins, sr. Arnór Árnason í Hvammi og síðast en ekki síst sr. Sigfús Jónsson. Var hlutur sr. Sigfúsar þar sýnu mestur, því hann átti öðrum mönnum meiri þátt í því að félagið komst yfir sínar verstu efnahagslegu þrengingar og náði að byggja upp sinn fjárhagsgrunn. Til þess lagði sr. Sigfús sjálfan sig að veði og sinn embættisframa og verður sá þáttur síst ofmetinn.
Það var svo undir lok stjórnunarferils sr. Sigfúsar hjá KS, sem annar, merkur áfangi náðist þegar Mjólkursamlagið var stofnað. Lokaákvörðun um stofnun þess var tekin á aðalfundi Kaupfélagsins þ. 20. apríl árið 1934. Reyndar hafði umræðan hafist á aðalfundi árið 1928 og var þá kjörin undirbúningsnefnd til að vinna að málinu. Kreppan, sem hófst haustið 1929, kom þó í veg fyrir að málið fengi framgang þá strax og var á tímabili mikið skoðað hvort smjörbú/rjómabú væri ekki æskilegasta lausnin fyrir skagfirska bændur. Það er hinsvegar ljóst af gögnum KS og öðrum gögnum, sem aðgengileg eru, að opinberir aðilar voru þess mjög hvetjandi að koma á fót mjólkurvinnslu að norrænni fyrirmynd.
Bæði var að í gjaldeyrisskorti þessa tíma sáu menn eftir dýrmætum gjaldeyri í innflutning á vörum, sem hægt væri að framleiða heima fyrir sem og mun þarna líka hafa vegið þungt áróður Vilmundar Jónssonar, landlæknis fyrir gerilsneyðingu allrar neyslumjólkur. Hann háði harða baráttu á mörgum vígstöðvum við hvíta dauðann, sem lagði að velli gríðarlega stóran hluta landsmanna á hverju ári og einn þátt í því taldi hann með réttu vera að fyrirbyggja svo sem mögulegt væri að smit bærist með matvælum. Neyslumjólk er eðli málsins samkvæmt afskaplega næm fyrir smiti, auk þess sem mjólkurkýr geta verið smitberar. Náðu sjónarmið hans eyrum stjórnvalda, sem lögðu áherslu á að gera allar ráðstafanir, sem framkvæmanlegar voru, til þess að minnka smithættuna með því að sem mest af þeim mjólkurvörum sem landsmenn neyttu, væru gerilsneyddar. Var meðal annars um að ræða sérstaka aðstoð við fjármögnun slíkra vinnslustöðva.
Sr. Sigfús lifði það að sjá Mjólkursamlagið rísa af grunni og taka til starfa, en síðla árs 1937 varð hann bráðkvaddur, 71 árs að aldri. Þegar þarna var komið sögu hjá Kaupfélaginu, hafði því auðnast að byggja upp á eigin vegum slátur- og frystihús hér á Sauðárkróki, og vísi að fiskmóttöku. Ekki var það síður mikilvægt í hugum félagsfólks, að því tókst að kaupa eignir, sem áttu eftir að verða félaginu mikilvægar næstu áratugina. Má þar helst nefna s.n. Claessens-hús, Kaupvang, eins og það mun hafa heitið, sem síðar gekk undir nafninu Syðri-búð, og svo ekki síður húsið Uppsali, sem oftast er nefnt „Grána“ hér á Sauðárkróki, en félagið hafði byggt það árið 1904 og hýsti það fyrstu söludeild þess, þótt félagið hafi orðið að selja þessa eign ásamt fleirum á þrengingaárunum undir lok fyrsta áratugs 20. aldar.
Nú verður að fara hratt yfir sögu, tíma og rúms vegna, en við tók af sr. Sigfúsi sem stjórnarformaður og kaupfélagsstjóri Sigurður Þórðarson á Nautabúi, sem var reyndar tengdasonur sr. Sigfúsar. Um þetta leyti urðu breytingar á lögum um samvinnufélög og var samþykktum KS breytt til samræmis við þær á aðalfundi vorið 1938. Í þeim fólst m.a. sú breyting, að sami maður gat ekki gegnt starfi kaupfélagsstjóra og verið stjórnarformaður. Sigurður hætti því í stjórn og við tók sem formaður Pétur Sighvats, símstöðvarstjóri á Sauðárkróki. Hans naut því miður ekki lengi við, því hann lést síðar þetta sama ár.
Tók þá við varaformaðurinn, Tobías Sigurjónsson í Geldingaholti og þar var ekki tjaldað til einnar nætur, því hann átti eftir að veita stjórninni formennsku allt til þess að hann lést árið 1973, í þrjátíu og fimm ár alls. Fyrir Sigurði lá þó ekki aftur á móti að vera mjög lengi við stjórn félagsins, því hann ákvað árið 1945 að segja starfi sínu lausu og árið 1946 tók við Sveinn Guðmundsson og átti hann eftir að vera í brúnni í 26 ár alls eða lengur en nokkur kaupfélagsstjóri til þessa. Á þessum rúma aldarfjórðungi, sem Sveinn stýrði félaginu, var gríðarlega margt framkvæmt auk þess sem félagið styrktist mjög á efnahagssviðinu.
Fyrst ber að nefna að félagið reisti nýtt hús fyrir mjólkursamlagið, sem enn hýsir þá merku starfsemi. Síðan var tekið til óspilltra málanna að byggja upp framtíðaraðstöðu fyrir slátrun og fiskvinnslu á Eyrinni. Var grunnhugsunin sú að samnýta frystivélar og tengdan búnað bæði fyrir kjöt og fisk og stendur það fyrirkomulag styrkum fótum enn í dag, eins og menn þekkja. Sláturhúsið tók til starfa 1953 og á Þorláksmessu árið 1955 var tekin ákvörðun um að KS stæði að stofnun Fiskiðju Sauðárkróks hf., með þátttöku Sauðárkrókskaupstaðar, sem þá var, og nokkurra einstaklinga. Það er ekki ofmælt að segja, að með stofnun Fiskiðjunnar á þessum tíma hafi verið lagður grunnur að þeim mikla efnahagslega styrk, sem nú einkennir samstæðuna, þótt auðvitað hafi rekstur og starfsemi fyrirtækisins ekki verið dans á rósum í millitíðinni, síður en svo.
Tilvist þess ein og sér og að auki sú aðstaða, sem því tókst að byggja upp, hefur hinsvegar nýst vel í höndum á góðum stjórnendum til uppbyggingar fiskvinnslu og útgerðar hér á staðnum og væri auðvitað freistandi að fara fleiri orðum um það, en verður skilið við það að sinni. En það var fleira, sem gerðist á kaupfélagsstjóraárum Sveins, því meðal þess, sem byggt var upp var verslunar- og iðnaðarhús að Skagfirðingabraut 17 – 21, þar sem komið var fyrir verslun með kjörbúðarsniði, kjötvinnslu, mjólkur- og fiskbúðum. Upphaflega var einnig meiningin að setja upp og ætlað rými fyrir brauðgerð, en af því varð þó ekki. Enn var byggt og næst var það útibúið að Varmahlíð og síðar hverfiskjörbúð við Smáragrund á Sauðárkróki.
Undir lok stjórnunartíma Sveins var svo Kaupfélag Austur-Skagfirðinga á Hofsósi sameinað KS og lagður grunnur í raun að áframhaldandi sameiningu samvinnufélaganna í Skagafirði, þótt það drægist fram undir lok áttunda áratugarins að það gerðist formlega, m.a. vegna skattalegra forsenda, sem á þessum tíma voru óvinsamlegar slíkum samruna. Síðustu stórframkvæmdirnar, sem þeir Sveinn og Tobías lögðu í var endurbygging á sláturhúsinu á Eyrinni, sem lauk haustið 1973.
Við af Sveini tók svo aðstoðarmaður hans, Helgi Rafn Traustason og hann hélt áfram þeirri uppbyggingarstefnu, sem Sveinn hafði fylgt. Tobías Sigurjónsson var enn formaður, er Helgi tók við, en Tobíasi auðnaðist ekki að sjá verklok í endurbyggingu sláturhússins, því hann fórst í dráttarvélarslysi um sumarið. Gísli Magnússon í Eyhildarholti, tók við af Tobíasi og af honum tók við sem formaður Jóhann Salberg Guðmundsson, sýslumaður árið 1978. Gísli lést svo árið 1981, en áður hafði hann verið sæmdur nafnbótinni Heiðursfélagi KS. Á undan honum munu hafa fengið þá nafnbót Albert Kristjánsson á Páfastöðum og Sveinn Guðmundsson, kaupfélagsstjóri að því að næst verður komist. Ekki verður séð svo óyggjandi megi teljast að Ólafi Briem hafi verið sýnd sú virðing, þótt honum væri að verðleikum þökkuð brautryðjandastörf í þess þágu.
Enn verður að fara hratt yfir sögu. Á kaupfélagsstjóraárum Helga Rafns var margt framkvæmt og annað undirbúið. Lokið var við endurbyggingu sláturhússins haustið 1973 og næstu árin var síðan byggt sérstakt stórgripasláturhús og frystigeymslur stækkaðar. Hafin var endurbygging á aðstöðu Fiskiðjunnar til að auka afkastagetu og bæta hráefnismeðferð og var sú framkvæmd mikið á herðum Marteins Friðrikssonar, sem veitti Fiskiðjunni forstöðu frá stofnun fram yfir miðjan níunda áratug síðustu aldar. Mjólkursamlagið var svo tekið til gagngerrar endurskipulagningar og vinnslulínum breytt til samræmis við nýja reglugerð um vinnslu mjólkurvara og samhliða fór fram tæknivæðing heima á framleiðslubýlunum, sem fólst í aukinni notkun vélrænna mjaltakerfa og rafrænni kælingu mjólkur.
Þetta kallaði jafnframt á nýskipan mjólkurflutninga og eins og fyrr segir endurskipulagningu vinnslulína samlagsins. Húsakynni Varmahlíðarútibúsins voru aukin og endurbætt og síðast en ekki síst var hafinn undirbúningur að byggingu aðalverslunar og höfuðstöðva félagsins við Ártorg á Sauðárkróki. Ýmislegt fleira mætti telja, en ekki má láta hjá líða að nefna að mesti eldsvoði, og líklega sá eini, sem félagið hefur orðið fyrir, varð svo haustið 1980, þegar útibúshúsið í Varmahlíð varð eldi að bráð, og var nánast ekkert þar eftir annað en hússkrokkurinn.
Undraskamman tíma tók hinsvegar að endurbyggja húsið og tókst að opna verslun og veitingaaðstöðu fyrir jól sama ár. Helgi Rafn varð svo bráðkvaddur á vetrarsólstöðudaginn, 21. desember árið 1981, aðeins 44 ára að aldri. Þegar atburðir gerast með þessum hætti, þá verður ekki hjá því komist að það myndist stjórnunarleg eyða þar til nýr maður hefur verið fenginn að stýrinu. Stjórn KS var þarna vandi á höndum því þeir tveir af starfsmönnum félagsins, sem helst komu til greina til að taka við stjórn félagsins, þeir Marteinn Friðriksson, frkvstj. FISK og Álfur Ketilsson, skrifstofustjóri, aftóku báðir með öllu að taka verkefnið að sér, en samt sem áður hlutu þeir að taka á sig stærstu byrðarnar af því að reksturinn gengi án áfalla fram til þess að nýr kaupfélagsstjóri tók við. Fórst þeim þetta vel úr hendi, enda ekki kannski á öðru von. Marteinn sinnti svo sem auðskilið er fyrst og fremst Fiskiðjunni, enda stóð hún á þessum tíma í framkvæmdum og uppbyggingu, en studdi Álf í uppgjörs- og bókhaldsverkefnum.
Það kom því að mestu í hlut Álfs að sinna Kaupfélaginu sem slíku og skertist í engu það traust og virðing, sem hann hafði þá þegar áunnið sér, við þessa viðbótarábyrgð, hvort sem litið var til viðskipta- og félagsmanna ellegar starfsfólks, heldur jókst. Stjórnin réð hinsvegar sem kaupfélagsstjóra Ólaf Friðriksson, sem gegnt hafði slíku starfi fram til þess á Kópaskeri, úr stórum hópi umsækjenda og tók hann við um vorið. Á sama ári hætti Jóhann Salberg sem formaður stjórnar og við tók Gunnar Oddsson. Níundi áratugur aldarinnar var tími efnahagslegra erfiðleika og þrenginga á fjármálasviði, en samt tókst að ljúka byggingu höfuðstöðva KS við Ártorg og einnig endurbyggingu vinnslustöðvar Fiskiðjunnar.
Marteinn Friðriksson hætti störfum vegna aldurs 1986 og við tók Einar Svansson, sem verið hafði vinnslustjóri fyrirtækisins. Ólafur hvarf hinsvegar til annarra starfa og varð forstöðumaður Verslunardeildar Sambandsins í ársbyrjun 1988, en við af honum tók um vorið Þórólfur Gíslason, sem enn gegnir því starfi og með aðkomu hans má segja að nýtt tímabil framfara og uppbyggingar hefjist hjá félaginu. Á aðalfundi félagsins þetta vor hætti Gunnar Oddsson í stjórn og við tók af honum sem formaður Stefán Gestsson.
Útgerðarfélag Skagfirðinga, sem stofnað var árið 1968 og hafði aukið atvinnuöryggi verkafólks hér um slóðir með tryggari hráefnisöflun til fiskvinnslustöðva en áður hafði þekkst hér, var komið að fótum fram þegar hér var komið sögu. Fyrir utan að koma skikki á lausafjárvanda KS og betra rekstrarskipulagi innan félagsins, hlaut því vandi ÚS að verða eitt af þeim verkefnum, sem nýr kaupfélagsstjóri varð að takast á við. Margar ástæður voru fyrir þrengingum ÚS, en meðal annars olli þar miklu gríðarlegur kostnaður við endurbyggingu togarans Drangeyjar, sem bæði reyndist dýrari en áætlað var, auk þess sem breyting sú, sem gerð var á skipinu varð óhagkvæm.
Aðstæður í þjóðfélaginu voru líka að breytast hratt og meðal þess var uppstokkun á fiskveiðistjórnarkerfinu og við því þurfti að bregðast með einhverjum þeim hætti, sem tryggði að veiðiheimildir héldust í sem mestum mæli innan héraðsins. Hér verður þessu gríðarlega umfangsmikla verkefni ekki gerð frekari skil en óhætt mun samt að segja, að úrlausn þess hafi tekist vonum framar og sú fyrirhyggja, sem þarna var sýnd, eigi mestan þátt í því hversu vel hefur til tekist í uppbyggingarstarfi því, sem þarna hófst.
Þarna sem oft áður vóg þungt sú trausta samstaða, sem lengst af hefur ríkt í stjórn félagsins þegar samstilla hefur þurft krafta félags og félagsfólks. Stjórnarfólk bæði stóð einhuga að baki sínum ráðnu stjórnendum og tók virkan og afgerandi þátt í þeim erfiðu verkefnum, sem vinna þurfti. Það er ekki hallað á neinn þótt nefndir séu á nafn núverandi og fyrrverandi formenn, þeir nafnar Stefán Gestsson og Stefán Guðmundsson í þessu samhengi. Þar fléttaðist farsællega saman íhygli og framsýni bóndans annarsvegar og virðing og tengsl samfara baráttugleði og kjarki stjórnmálamannsins hinsvegar.
Það var nefnt hér að framan, að kaupfélagsstjórinn hefði tekið til við að endurskipuleggja rekstrarfyrirkomulag félagsins í heild og þáttur í því var að hann réð sér sem aðstoðarmann og nánasta samverkamann Jón E. Friðriksson, frkv.stj. á Sauðárkróki. Endurskipulagning útgerðar og fiskvinnslu kallaði þó fljótt á það að Jón tæki við forstöðu í sameinuðu fyrirtæki á því sviði, en sæti hans hjá kaupfélaginu fyllti Sigurjón Rúnar Rafnsson, viðskiptafræðingur og búfræðingur. Hafa þessir þrír náð vel saman og myndað afskaplega gott stjórnunarteymi og er þar rétt og skylt að geta um aðkomu Ólafs Sigmarssonar, sem hefur veitt forstöðu verslunarsviði félagsins og Marteins Jónssonar, sem hefur nýverið komið til liðs við framkvæmdastjórnina.
Gríðarlegar breytingar hafa orðið á samsetningu þeirrar viðskiptaheildar, sem myndar samstæðureikning Kaupfélags Skagfirðinga. Félagið hefur til viðbótar við kaup og sölu skipa, bætti við sig veiðiheimildum, sem hefur bjargað því að hægt er að halda uppi stöðugri landvinnslu hér þrátt fyrir þann niðurskurð, sem orðið hefur á leyfðum afla. Það hefur einnig aukið og útvíkkað starfsemi sína, bæði þá sem fyrir var og með landvinningum á öðrum sviðum. Nefna má að félagið hefur greitt mjög götu þeirra mjólkurbænda, sem hafa kosið að auka við framleiðslu sína og samhliða hefur orðið aukning á vinnslu mjólkurvara.
Samlagið hefur þar með verið aukið og endurbætt að vélakosti og öðrum búnaði og húsnæði þess stækkað og bætt. Ekki má gleyma að geta um gríðarlega aukningu á umsetningu kjöts og sláturafurða, en nú er lógað á annað hundrað þúsund fjár í sláturhúsinu hér á Sauðárkróki, auk þess sem félagið kemur að slátrun á Hvammstanga með eignarhlut í sláturhúsinu þar og sameiginlegu sölustarfi beggja sláturhúsa. Félagið tók við fóðurframleiðslu fyrir loðdýr og einnig á það hlut í jarðgerðarstöð, sem m.a. sér um að breyta þeim hluta innyfla sláturfjár, sem ekki nýtist í fóðurgerð, í jarðveg.
Framleiðsla á fóðurvörum fyrir nautgripi og sauðfé hefur lengi verið umfangsmikil hjá félaginu, en hefur tekið gríðarlegum breytingum eftir að það eignaðist ráðandi hlut í Fóðurblöndunni hf. Verslunarmálin hafa verið endurskipulögð, m.a. með stórauknum beinum innflutningi. KS tók við rekstri Trésmiðjunnar Borgar fyrir nokkru, þegar fjárhagslegir erfiðleikar steðjuðu að því góða fyrirtæki og er þá fátt eitt talið af þeim verkefnum, sem það hefur komið að síðustu tuttugu árin. Síðast en ekki síst er freistandi að nefna eina stærstu byggingu, sem félagið hefur ráðist í um margra ára skeið, en það er nýbygging þjónustuverkstæðanna við Eyrarveg á Sauðárkróki, en þar næst langþráður áfangi, sem félagsmenn og starfsmenn hafa lengi haft augastað á.
Hér hefur vissulega verið stiklað á stóru og mörgu sleppt, sem vert hefði verið að minnast á. Kaupfélag Skagfirðinga kemur víða við í daglegu lífi héraðsbúa og vegur afskaplega þungt í öllu athafnalífi héraðsins. Of þungt finnst sumum og það er vissulega umhugsunarefni hve langt eigi að ganga í því efni. Oft og iðulega hefur félag og félagsstjórn orðið að taka skjótar ákvarðanir í þessum efnum og þurft að taka á sig meiri ábyrgð á atvinnulífi héraðsins, en þeim hefur þótt gott. Oftar en ekki hefur þar þó verið um að ræða að koma í veg fyrir að störf tapist eða stuðla að því að ný skapist. Þar hefur því ansi oft verið um það að ræða að félagið hafi ekki átt neitt val, þegar það hefur getað, en aðrir hafa ekki getað né viljað. Sú hugsun er þar lögð til grundvallar, að félagið er eign þess fólks, sem hér býr og verður ekki af okkur tekið meðan tekst að halda rekstrinum í lagi. Við getum sem dæmi velt því fyrir okkur, hver hefðu orðið örlög togskipa okkar og veiðiheimilda þeirra, ef á bak við þau hefði verið opið hlutafélag á markaði. Þá væri óvíst hvort við nytum þeirrar stöðu í atvinnumálum, sem við gerum í dag.
Kaupfélag Skagfirðinga er nú búið að starfa í 120 ár samfellt og hefur aldrei í allan þann tíma verið viðlíka öflugt og það er nú. Um framtíðina veit enginn, en þar skiptir mestu máli að þeir sem taka við keflinu á hverjum tíma kunni annarsvegar að ætla sér af og hafa forsjálni að leiðarljósi samhliða því að hafa kjark til að nýta öll góð tækifæri sem birtast kunna og framsýni til að greina á milli hvað sé farsælt fyrir framtíð byggðarinnar og hvað ekki. Ekki er síður brýnt, að áfram takist að halda því góða samstarfi og trúnaði, sem ríkt hefur milli kjörinnar stjórnar og ráðinna stjórnenda.
Til hamingju með afmælið, félagsfólk, til hamingju stjórnendur og starfsfólk. Megi Kaupfélag Skagfirðinga halda áfram að vaxa og dafna og verða áfram um ókomna tíð sú trausta undirstaða, sem það er í lífi og starfi Skagafirðinga.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.