Karvel Lindberg Karvelsson sækist eftir 3. sæti hjá Sjálfstæðisflokknum
Karvel Lindberg Karvelsson bóndi á Hýrumel í Borgarfirði hefur ákveðið að bjóða sig fram í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi. Karvel óskar eftir stuðningi í
3. sæti í prófkjörinu.
Karvel er 37 ára gamall og hefur lokið BS námi í búvísindum frá Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Hann er kvæntur Lindu Björk Pálsdóttur fjármálastjóra Borgarbyggðar og saman eiga þau Ingu Lóu og Karvel Lindberg.
Ég er formaður Sjálfstæðisfélags Borgarfjarðarsýslu og hef verið það sl. 4 ár en jafnhliða því hef ég tekið að mér ýmis trúnaðarstörf fyrir flokkinn.
Ég sat í fræðslunefnd Borgarfjarðarsveitar og hef verið í fræðslunefnd Borgarbyggðar síðan sveitarfélögin sameinuðust og er nú varaformaður nefndarinnar.
Ég gegni ýmsum trúnaðarstörfum fyrir bændastéttina, er meðal annars í stjórn Búnaðarsamtaka Vesturlands og sit í ýmsum nefndum fyrir mitt búgreinafélag. Ég hef verið virkur þátttakandi í þjóðfélagsumræðunni um málefni bænda.
Ég býð mig fram af því að mig langar að koma að því uppbyggingarstarfi sem framundan er í íslensku samfélagi.
Ég tel nauðsynlegt að einstaklingar sem hafa beina tengingu við atvinnulífið og hafa upplifað sjálfir hversu mikilvægt það er að fyrirtækjum sé búinn eðlilegur rekstrargrundvöllur láti til sín taka í þeim verkefnum sem framundan eru.
Ég held að allir geti verið sammála um að nú sé nóg komið af samrunahagnaði, útrás og skuldsettum yfirtökum, nú er kominn tími til að bretta upp ermar og skapa einhver raunveruleg verðmæti.
Íslenskt þjóðfélag hefur alla burði til þess að verða öflugt framleiðsluland í þeim skilningi að hér býr vel menntað og vinnusamt fólk sem getur nýtt á skynsaman hátt allar þær gjöfulu auðlindir sem landið hefur upp á að bjóða.
Ég er tilbúinn að beita mér af fullum krafti fyrir þau mörgu og brýnu verkefni sem bíða okkar, fái ég til þess umboð.
Mín helstu baráttumál verða atvinnumál, landbúnaðar- og menntamál.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.