Kaflaskil í landbúnaði – Ræktum Ísland
Það þarf ekki að fjölyrða um gildi og þýðingu íslensks landbúnaðar, fyrir þeim sem á annað borð geta séð í samhengi þjóðarhag og hagsmuni þeirra sem landið byggja. Áhrif landbúnaðar eru langt umfram fjölda bænda, eða beinharðar framleiðslutölur eða hlutdeildar á markaði matvæla. Landbúnaður hefur sannarlega gengið í gegnum mikla breytingar á undanförnum áratugum. Óvíða hefur framleiðni aukist meira.
Einn mælikvarði á breytingar eru t.d. ríkisútgjöld vegna landbúnaðar. Fyrir 1990 voru bein útgjöld ríkissjóðs vegna landbúnaðar allt að 10% af vergri landsframleiðslu. Í dag rétt við 1% á sama mælikvarða. En miklu meira munar um hve miklu lægra hlutfall íslenskra búvara eru í framfærslu heimila. Það gerðist ekki af sjálfum sér.
Opinber útgjöld, vegna landbúnaðar, eiga rætur sínar í þeirri viðleitni þjóðarinnar að verða sér sem mest sjálfbær með búvöru – en þyngra á metunum var hvernig verð landbúnaðarvara var notað sem kjarajöfnunartæki í samfélaginu. Landbúnaði og starfskilyrðum hans var beitt til að leysa kjaramál. Ekki endilega alltaf með hagsmuni landbúnaðar og viðgang greinarinnar í huga. Kaflaskil urðu um 1990 þegar ráðist var í lækkun útgjalda ríkissjóðs til landbúnaðarmála og ekki síst í samdrætti á framleiðslu á búvöru og aðlögun að innlendum markaði.
Landbúnaður við upphaf þriðja áratugar 21. aldar er allt annar landbúnaður en var verið að glíma við 1990. Þó verður vart við umræðu sem er föst í hugmyndum og viðhorfum til landbúnaðar sem var. Þessi kyrrstaða er loks rofin með nýjum tón sem sleginn er í merku grundvallarriti sem landbúnaðarráðherra Kristján Þór Júlíusson hefur lagt fram og er vinna þeirra Björns Bjarnasonar og Hlédísar Sveinsdóttur, ásamt fleirum. Ræktum Ísland.
Við samþykkt búvörusamninga á Alþingi 2016 var eindreginn vilji Alþingis að ráðist yrði í grundvallarendurskoðun á umgjörð landbúnaðar. Samráðshópur um búvörusamninga sem við Brynhildur Pétursdóttir fv. alþingismaður stýrðum, lagði til að mótuð yrði landbúnaðarstefna. Við höfðum lagt upp umræðu um framtíð landbúnaðar með markvissum hætti og komu mörg hundruð manns þar að verki. Tillögur samráðshóps um búvörusamninga voru margþættar.
Ræktum Ísland endurspeglar vel þær áherslur. Íslenskur landbúnaður er hluti af alþjóðlegu umhverfi. Þýðing hans er ekki minni en hann hefur alltaf verið fyrir þjóðina. Heldur er hann nú líklega mikilvægari en nokkurn tímann fyrr. Þar mætti nefna marga þætti – og nægir kannski helst að nefna grundvallarhlutverk hans en það er fyrst og fremst að vera uppruni framboðs af heilnæmum matvælum. Ræktun af ábyrgð og þekkingu.
Á síðustu árum hefur orðið grundvallarbreyting í dreifðum byggðum í atvinnuháttum. Enn eru nýjar áskoranir. Okkur tókst, umfram aðrar þjóðir að skapa þann grundvöll með nútíma fjarskiptatækni. Í nýlegri rannsókn er staðfest að ljósleiðaravæðing sveitanna hefur mikla efnahagslega þýðingu og er hin nýja kjölfesta – og fólki fjölgar á ný í sveitum. Hver hefði trúað því fyrir örfáum árum síðan? Því þarf að fylgja eftir með því að stækka og efla íslenskan landbúnað.
Því rétt eins og í upphafi þessarar greinar er sagt, eru áhrif landbúnaðar langt umfram talningu á bændum og framleitt magn búvöru. Landbúnaður er hluti þjóðaröryggis. Landbúnaður er grunnur að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar og fullveldi. Ræktum Ísland er því grundvallarumræðuskjal um þau kaflaskil sem þurfa að verða í nálgun okkar á starfa umhverfi íslensks landbúnaðar.
Ég hvet ykkur eindregið til að mæta á fundi Sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra. Fyrsti fundurinn er á Hvanneyri 1. júní nk. kl 20.
Haraldur Benediktsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.